132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:41]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Allt frá því að jarðskjálftinn mikli reið yfir þann 8. október síðastliðinn höfum við verið að fá hræðilegar fréttir af þessu svæði og það virðist því miður vera þannig að hjálparstarf hafi að einhverju leyti brugðist á jarðskjálftasvæðunum.

Við höfum líka fengið fréttir af því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að veita tæplega 19 millj. kr. til hjálparstarfsins. Þetta er að sjálfsögðu hlægilega lág upphæð og okkur öllum til háborinnar skammar. Þessa upphæð á að hækka og það snarlega. Það á líka að sjá til þess að upphæðin berist á þá staði þar sem neyðin er þannig að peningarnir hjálpi þeim sem eru hjálparþurfi.

Síðar í dag munum við ræða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005. Ef maður skoðar frumvarpið sér maður það strax að það er til nóg af peningum. Það er ekki eins og við séum svo blönk að við höfum ekki efni á því að hjálpa þessu fólki.

Við getum til að mynda skoðað póstinn utanríkisráðuneyti en þangað á að dæla núna aukalega 326 millj. kr. Sendiráð Íslands 276 millj. Almennur rekstur yfirstjórnar utanríkisráðuneytisins 50 millj. Þetta er ekkert mikið mál. Þarna eru peningarnir. Við skulum bara taka þá úr utanríkisráðuneytinu og færa þá til Kasmír.