132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:44]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Magnúsi Stefánssyni, fyrir framsöguerindi hans og ágætlega greinargóða yfirferð yfir tillögur meiri hlutans á milli umræðna. Þetta er 2. umr. um fjáraukalögin, nokkurs konar millikafli þangað til við sjáum þau í endanlegri mynd við 3. umr. og í sjálfu sér lítið fréttnæmt sem orðið hefur milli umræðna.

Helst sýnist kannski fréttnæm sú mikla viðhorfsbreyting sem virðist í forsætisráðuneytinu gagnvart embætti forseta Íslands. Hér kemur fram tillaga frá ráðuneytinu um 98 millj. kr. aukafjárveitingu til forsetaembættisins. Við höfum líka séð að eftir forsætisráðherraskipti nýverið hefur árleg fjárveiting til embættis forseta Íslands farið úr, hygg ég, 124 millj. kr. 2003 í fjárlögin í ár upp á 177 millj. kr., þ.e. nærri helmingsaukning á örskömmum tíma. Nú er rekstrarhallinn hreinsaður upp. Við þekkjum það í þessum sölum að fjárveitingatillögur forsætisráðuneytisins til embættis forseta Íslands hafa ekki hrokkið fyrir útgjöldum um langt árabil og það hefur verið til vansa að sjá embættið á fjáraukalögum ár eftir ár. Æðsta stjórn ríkisins á náttúrlega að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég lýsi þeirri von minni að þessi mikla viðhorfsbreyting í forsætisráðuneytinu til þarfa embættis forseta Íslands og sú aðgerð sem hér er farið í í fjáraukalagafrumvarpinu verði til þess að við hættum að sjá embættið á fjáraukalögum frá ári til árs svo að samvinna ráðuneytisins og embættisins verði til þeirrar fyrirmyndar sem hún þarf að vera í okkar ágæta samfélagi.

Við höfum áður gagnrýnt nokkuð æðstu stjórnina. Hér var Alþingi á hinn bóginn hælt nokkuð við 1. umr. sem verður að draga til baka, því miður, því að hér er enn einu sinni komin tillaga um aukafjárveitingu til Alþingis sjálfs upp á 15 millj. og sýnt að framkvæmdir í Alþingishúsinu hafa enn einu sinni farið fram úr áætlunum, nú um liðlega 26 millj. Það er algerlega óviðunandi að við á löggjafarsamkundunni virðum ekki fjárlagarammann og vöndum ekki betur til áætlanagerðar. Það erum við sem setjum fjárlögin. Það erum við sem setjum fjárreiðulögin. Hér er fjárveitingavaldið og það á auðvitað að vera alger undantekning að Alþingi sjálft lendi inni á fjáraukalögum vegna þess að áætlanagerð þess hafi ekki verið viðunandi. Við hljótum áfram að gagnrýna það og auðvitað harma í yfirferðinni yfir æðstu stjórn ríkisins að þau ráðuneyti, forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti, sem eiga að fara fyrir um aga og aðhald í ríkisfjármálum, um vandaða áætlanagerð og reglufestu, skuli jafnoft vera á fjáraukalögum og raun ber vitni. Kannski varðar það ekki síst forsætisráðuneytið því að þar er um að ræða aðalskrifstofuna. Auðvitað er líka gagnrýnisvert hvernig haldið hefur verið á fjármálum aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins um langt árabil. Þar situr alla jafna formaður hins stjórnarflokksins og stýrir málum, og honum ber auðvitað rík skylda til þess að fara á undan með góðu fordæmi í fjársýslu allri.

Þegar sá reikningur sem við fáum hér frá sendiráðum landsins upp á 270 millj. í viðbótarreikning þrátt fyrir stóraukin útgjöld á umliðnum árum til þessara sendiráða — og þegar til þess er horft að þessi 270 millj. kr. fjárveiting virðist ekki hrökkva fyrir vandanum heldur er líka verið að sækja það að sendiráðin njóti gengisþróunarinnar í ár ólíkt því sem vera ætti samkvæmt reglunum í fjárlagagerðinni — er skoðaður hlýtur maður að gagnrýna þau lausatök sem hafa glögglega verið á fjárreiðum sendiráðanna í utanríkisráðuneytinu og á aðalskrifstofunni.

Það er mikilvægt að við hér í þinginu, æðsta embætti ríkisins og þau ráðuneyti framkvæmdarvaldsins sem forustu hafa fyrir ríkisstjórninni förum á undan með meiri reglufestu og aga í vinnubrögðum en þetta fjáraukalagafrumvarp sýnir. Ég held að þar verði allir aðilar að taka á svo að okkur geti verið meiri sómi að framkvæmd fjárlaganna en raun ber vitni.

Við höfum út af fyrir sig talað um framkvæmd fjárlaganna við 1. umr. um fjáraukalögin og líka við umræðuna um fjárlögin og svo sem mörg undanfarin ár. Menn þekkja þann ágreining sem þar hefur verið uppi. Við höfum bent á það að hér eru jafnan kynnt fjárlög við upphaf þings á nokkurs konar áróðursfundum fjármálaráðherra þar sem dregin er upp ákaflega jákvæð mynd af þróun ríkisrekstrarins. Því miður eiga þær tölur sjaldan mikið skylt við veruleikann og frávikin eru satt að segja gríðarlega mikil, bæði gjaldamegin og nú þetta árið, sem betur fer, líka teknamegin. Á frávikunum þurfum við að taka og vanda miklu betur til áætlanagerðar. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að bæði í sveitarfélögunum og í atvinnulífinu sjálfu mundu menn sæta ámæli fyrir þá áætlanagerð sem hér er uppi.

Við ræddum um málefni landbúnaðarráðuneytisins sömuleiðis við 1. umr. og ég held að þær athugasemdir standi út af fyrir sig óhaggaðar. Við hljótum líka að setja spurningarmerki við ýmsa þá liði sem rata inn á fjáraukalög sem eru augljóslega ekki óvænt, ófyrirséð eða óhjákvæmileg útgjöld á yfirstandandi ári. Hér eru ýmsar fjárveitingar þar sem verið er að hreinsa upp margra ára halla, útgjöld sem féllu til á allt öðrum árum, útgjöld sem ákveðið var að stofna til í ár án þess að neina knýjandi nauðsyn virtist bera til þess og þar fram eftir götunum. Þær eiga að vera okkur umhugsunarefni, efasemdirnar sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram um þessa framkvæmd alla og þær rúmu heimildir sem í fjárheimildunum standa um hver áramót, en í stað þess að taka þá umræðu hér eins og við höfum oft áður gert höfum við lagt fram sérstaka fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þar sem við rekjum ýmsar af athugasemdum Ríkisendurskoðunar um lausatök í ríkisrekstrinum og óskum með formlegum og skriflegum hætti eftir afstöðu ráðuneytisins til athugasemda Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaganna. Við væntum þess að þau svör muni berast á næstu vikum og kunni að gefa þá tilefni til frekari yfirferðar við 3. umr.