132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:26]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri þá aðra tilraun. Telur hv. þingmaður að vextir Seðlabankans séu of háir? Ef hann segir að það gefi auga leið að 7,5% vaxtamunur við útlönd gangi ekki, telur hann þá ekki að það verði að lækka þessa vexti? Varla fer Evrópa að hækka vexti við Ameríku okkar vegna til að jafna muninn.

Ef við lækkum vextina, sem ég er að vonast til að hv. þingmaður sé sammála mér að gera, er hann þá ekki sammála því sem allir segja að við það muni krónan veikjast og staða útflutningsgreinanna batna og telur hv. þingmaður það ekki af hinu góða? Nú bið ég hann um að svara já eða nei, það er miklu betra að fá svoleiðis svör.

Er þá ekki gefinn hlutur, sem allir þurfa að horfast í augu við, að kaupmátturinn minnkar, einkaneyslan minnkar? Fæ ég ekki svarið já eða nei? Er það ekki af hinu góða? Er það ekki nauðsynlegt, virðulegi forseti, að kaupmátturinn í innfluttum erlendum varningi lækki? Þarf ekki að gera mönnum nákvæmlega grein fyrir því að hann á að lækka því að hann er of mikill til þess að draga úr viðskiptahallanum? Mér þætti vænt um að fá svarið já eða nei.

Verða menn ekki að gera sér grein fyrir því að það er ekki bæði hægt að halda og sleppa? Það er ekki bæði hægt að hoppa til vinstri og um leið hoppa til hægri. Það er ekki bæði hægt að fara fram um leið og þú ferð aftur. Það verður að segja þetta alveg skýrt. Gengið er of hátt, kaupmáttur í erlendum varningi er of hár. Það þarf að lækka vextina til þess að framleiðslan á Íslandi fái lifað. Mikið væri það gaman, virðulegi forseti, ef hv. þm. Jón Bjarnason vildi nú staðfesta þessa skoðun mína.