132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:20]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sendi þingmönnum málalista með stefnuræðu sinni sem er upp á 179 mál. Örfá mál eru komin fram. Tíu þingdagar eru eftir fram að jólum. Að vísu eigum við eftir að hittast eftir áramót og taka frekar stutt þing vegna sveitarstjórnarkosninga.

En förum yfir þennan lista: Eitt mál frá forsætisráðuneytinu, eitt úr menntamálaráðuneytinu, þrjú úr utanríkisráðuneytinu, ekkert frá landbúnaðarráðuneytinu, ekkert frá sjávarútvegsráðuneytinu og eitt úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Virðulegur forseti. Af því að hv. þm. Hjálmar Árnason var að tala um samkomulag aðila vinnumarkaðarins í gær þá var það þannig að Samfylkingin ræddi það í gær í umræðu um fjáraukalög. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson tók það sérstaklega fyrir í gær eftir kl. fjögur rétt þegar fundurinn var að byrja, að mig minnir, og gott ef hann fagnaði ekki því sem þar væri fram undan.

Það er auðvitað aðalatriðið að það eru tíu fundardagar eftir á Alþingi. Ég nefni eitt mál sem snýr að hæstv. byggðamálaráðherra sem var hér rétt áðan en er farinn úr þingsal. Byggðaáætlun, þingsályktunartillaga um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 2006–2009, er ekki komin fram enn þá og væntanlega á að klára hana fyrir jól. Á að klára hana á næstu 10 dögum? Það er kannski ekki óeðlilegt að unnið sé á þann hátt, það er þá í takt við byggðamálastefnu hæstv. ríkisstjórnar sem er nánast ekki neitt. Og ef á að sulla því máli í gegn á tíu dögum þá segir það margt um þá áætlun.

Hitt atriðið, starfsmannaleigur er stórmál. Á líka að sulla því í gegn á næstu tíu dögum? Hér í þinginu, umræða í nefnd og taka það í gegnum þrjár umræður? Það er sannarlega mikill vandræðagangur hæstv. ríkisstjórnar hvað þetta varðar. Við heyrðum það, fulltrúar Norðausturkjördæmis, hvernig sveitarfélögin á Austurlandi kvarta yfir að fá ekki útsvarstekjur af sínum erlendu starfsmönnum. Halda menn virkilega að það sé til sóma fyrir Alþingi, virðulegi forseti, að það sé afgreitt á nokkrum dögum með express-hraða í lokin.