132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:58]
Hlusta

Guðjón Guðmundsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð var felldur niður virðisaukaskattur upp á 937 millj. kr. af framkvæmdinni gegn því að lagður yrði 14% virðisaukaskattur á veggjaldið. Þessi 14% skattur er núna langt kominn með að borga upp það sem fellt var niður og því finnst mér sjálfgefið að sá skattur verði felldur niður. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að gjaldið eigi allt að falla niður. Ég flutti tillögu um það á Alþingi fyrir einu ári, og benti á leiðir til þess, sem því miður náði ekki fram að ganga.

Ég minni á að göngin eru eina samgöngumannvirkið á Íslandi sem er skattlagt. Ætli þar sé ekki borgaður 1 milljarður kr. á ári á sama tíma og enginn annar borgar neitt? Það nefnir enginn veggjald á tvöföldun Reykjanesbrautar, Fáskrúðsfjarðargöng, Héðinsfjarðargöng og hvað það heitir allt saman. Þetta fyrirkomulag er jafnan réttlætt með því að Hvalfjarðargöng séu einkaframkvæmd, sem er rökleysa að mínu mati. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru alls konar einkaframkvæmdir í gangi án þess að lýðurinn sé skattlagður til að borga niður framkvæmdina.

Ég minni á að nú stendur fyrir dyrum að byggja 12 milljarða kr. monthús við Reykjavíkurhöfn í einkaframkvæmd. Ríki og borg ætla að greiða niður kostnaðinn á 20 árum. Það nefnir enginn að leggja gjald á alla þá sem reka nefið inn í það fína hús.