132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í tilefni af orðum hæstv. ráðherra spyrja hvort ekki hafi verið mögulegt að þessar flugvélar lentu annars staðar. Auðvitað er það ekki viðunandi að herflugvélar séu á sveimi í lágflugi yfir borginni nema menn líti svo á að með því geti þeir komið því á framfæri að um sýnilegar varnir sé að ræða, að fólk þurfi á því að halda að sjá fjórar flugvélar á flugi öðru hvoru til að það verði rólegt og óttalaust í þessu landi. En það er ekki þannig.

Ég tel ástæðu til að spyrja hvort ekki hafi verið möguleiki á að lenda annars staðar og hvort reglur sem verið er að skapa um þessi efni verði ekki þannig úr garði gerðar að þessi varaleið verði a.m.k. ekki notuð nema í undantekningartilfellum sem væri næstum stjarnfræðilega ómögulegt að upp kæmu.