132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Stofnun stjórnsýsludómstóls.

122. mál
[15:46]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er: Hvað líður hugmyndum ráðherra um stofnun stjórnsýsludómstóls?

Það virðist gengið út frá því í fyrirspurninni að ég hafi ákveðið að leggja til stofnun slíks dómstóls. Það hef ég nú ekki gert. En ég hef sagt að hugmyndin um stjórnsýsludómstól eigi rétt á sér þótt ekki sé brýnt að setja slíkan sérdómstól á laggirnar. Lýsti ég viðhorfum mínum til þessa málefnis fyrir rúmu ári eða hinn 24. september 2004 á málþingi Lögfræðingafélags Íslands en þar var fjallað um hvort ástæða væri til að setja á laggirnar stjórnsýsludómstól. Ég taldi þá og tel enn að það þurfi að tryggja betri þekkingu á þessum málaflokki í dómskerfinu.

Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur ákvað í byrjun þessa árs að setja á fót sérstaka deild þriggja dómara sem færi með munnlega flutt einkamál þar sem einkum reynir á stjórnsýslurétt. Var ákvörðunin tekin í kjölfar þeirrar gagnrýni að ekki hafi gætt nægilegs samræmis í úrlausnum dómstóla í málefnum á sviði stjórnsýsluréttar. Í deildinni starfa eins og áður segir þrír dómarar og verður samkvæmt upplýsingum frá dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur í lok þessa árs síðan metið hvort þetta fyrirkomulag hafi gefið góða raun, svo góða raun að ástæða sé til framhalds á því. Þess má geta að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur telur reynsluna af deildinni mjög góða. Hún lofar góðu.

Virðulegi forseti. Ég hygg að hér hafi verið stigið spor í rétta átt og vænti þess að þegar nánari upplýsingar koma frá Héraðsdómi Reykjavíkur um það hvernig til hefur tekist verði unnt að skoða málið enn frekar. Ég tel það vel við hæfi að dómskerfið sjálft hugi að því hvernig það geti aukið þekkingu sína á þessum málaflokki.