132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kyoto-bókunin.

281. mál
[18:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Frú forseti. Hvað svo? Hæstv. umhverfisráðherra hefur ekki svarað því enn þá. Það er kannski eðlilegt því orðalag og efnisinnihald fyrri spurninganna virðist hafa komið við kaunin á hæstv. ráðherra. Ég hef satt að segja ekki heyrt í ráðherranum svona hvössum síðan hún komst í þetta embætti og ég fagna því að það skuli þó vera einhverjar tilfinningar eftir í ráðherranum því þær hefur heldur skort í þessu máli. Það er klárt að Davíð Oddsson, sá sem ráðherrann hefur bundið trúnað við nú í rúman áratug, sagði ekki að vísindagrunnurinn væri ótraustur. Hann sagði að hann væri afar ótraustur. Það þýðir nánast að hann sé ekki til. Það er þessi skoðun, sem Davíð Oddsson hefur þó dug í sér til að koma með ótvírætt á lokastigi sinnar pólitísku vegferðar, sem lýsir af öllu öðru sem kemur frá umhverfisráðuneytinu, umhverfisráðherranum og utanríkisráðherranum þessa dagana. Gunnar Pálsson sendiherra sagði í ræðu 10. nóvember síðastliðinn í Kaupmannahöfn t.d. þetta, lauslega snarað innan húss af þingmanninum sjálfum, með leyfi forseta, að vísindaskýrsla Norðurskautsráðsins leiði ekki til ótvíræðra ályktana um hvað eigi að gera til að vinna úr loftslagsbreytingum.

Nei, það er nefnilega það. Þetta er merkilegt sjónarmið vegna þess að ef maður vill nota þetta orðalag þá getur maður auðvitað sagt sem svo að þessar vísindaniðurstöður séu þannig að engar ótvíræðar ályktanir sé af þeim að draga. Það getur maður sagt um allar vísindaniðurstöður. Það sem hér um ræðir er auðvitað það að allir alvörufræðimenn og allir alvöruumhverfisráðherrar og utanríkisráðherrar í heiminum eru sammála um — og út á það gekk Kyoto-bókunin — að það séu ótvíræðar vísbendingar í hinum vísindalegu forsendum um hvað eigi að gera til að vinna á loftslagsbreytingum. Það eru þær ótvíræðu vísbendingar sem ég er að spyrja umhverfisráðherrann um auk þess sem ég er að spyrja hvort (Forseti hringir.) hún heldur áfram Kyoto-stuðningi okkar eða hvort hún fylgir George Bush og Ameríkönum í því að þurrka út það samkomulag.