132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega.

[10:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég hef aðeins sagt að það verði fjallað um þessi mál á þeim vettvangi sem hefur verið ákveðinn til þess. Það hefur ekki verið fjallað um þetta mál í tengslum við þessa kjarasamninga. Þar með er ekki sagt að þessar bætur taki ekki einhverjum breytingum. Ég held að þingmenn hljóti að geta fallist á að það verði svigrúm til þess að fara yfir þau mál.

Svo vildi ég nú aðeins segja við hv. þm. Helga Hjörvar: Það hefur aldrei neitt samkomulag verið svikið. Hann ætti að fara að venja sig á að tala með öðrum hætti um slíka hluti. Það var ákveðið á sínum tíma að hækka kjör öryrkja sérstaklega um einn milljarð. Það var staðið við það og gott betur. En þar með er ekki sagt að það megi ekki gera betur gagnvart öryrkjum. Að sjálfsögðu má gera mun betur og jafnframt má gera betur gagnvart öldruðum. Það hefur verið í gangi ákveðin vinna og mörg skref verið stigin í því sambandi og það verður haldið áfram að stíga skref bæði í sambandi við öryrkja og aldraða. En að fjalla um þessi mál með þeim hætti sem hv. þm. Helgi Hjörvar temur sér hér á Alþingi er náttúrlega fyrir neðan virðingu Alþingis.