132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nokkur misskilningur að ég hafi sérstaklega óskað eftir eða lýst áhuga á því að menn færu að rifja upp deilumálin sem slík, sem lágu til grundvallar átökunum um aðild Íslands að NATO 1949 og komu Bandaríkjahers hingað á nýjan leik 1951.

Ég var hins vegar að rifja upp fyrirvara og svardaga sem gefnir voru þá og viðhaldið var lengi síðan af forustumönnum stjórnmálaflokkanna sem báru ábyrgð á komu hersins, sem báru ábyrgð á aðildinni að NATO, um að hér skyldi aldrei vera her á friðartímum. Það væri af illri nauðsyn og vegna ófriðarástands í heimsmálum sem menn yrðu að sætta sig við veru erlends hers í landinu tímabundið.

Ég spurði og hv. þm. Össur Skarphéðinsson endurtók í raun þá spurningu hér áðan: Hvenær varð það að markmiði í sjálfu sér að hafa erlendan her í landinu, óháð aðstæðum, að því er virðist um aldur og ævi? Er það orðin stefna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og jafnvel Samfylkingarinnar, að hér þurfi helst að vera erlendur her í landinu um alla eilífð, bara ad infinitum, á meðan tímar renna? (Gripið fram í: Frá morgni til kvölds.) Frá morgni til kvölds og á nóttunni líka, allan sólarhringinn? Er orðið markmið í sjálfu sér að hafa erlendan her í landinu, að vera hersetið land?

Þá held ég því fram að Ísland sé eitt af örfáum löndum heimsins þar sem svo er komið að metnaðarleysi innlendra stjórnmálamanna, margra hverra en sem betur fer ekki allra, er þvílíkt að það er orðið að sjálfstæðu markmiði að hafa landið hersetið. Síðan er endalaust hægt að fara að klæða það í þann búning að þótt ekki sé hægt að benda á neina sýnilega ógn og engan sérstakan óvin, þúsundir og aftur þúsundir kílómetra frá landinu, séu samt viðsjárverðir tímar.

Þetta var mín spurning. Ég hef ekkert svar fengið við henni. Það kemur kannski síðar og ég vænti þess nefnilega (Forseti hringir.) að hv. þm. Halldór Blöndal gæti bara svarað þessu einfaldlega: Hvenær tók Sjálfstæðisflokkurinn upp þessa stefnu?