132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:17]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu. Í skýrslu utanríkisráðherra dró hann upp mynd af stöðu alþjóðastjórnmála nú um stundir og jafnframt góða mynd af þeim margvíslegu verkefnum sem íslenska utanríkisþjónustan sinnir. Í kjölfar ræðu hæstv. utanríkisráðherra hefur síðan fylgt umræða, m.a. um öryggismál í víðum skilningi, varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna, friðargæsluna og fangaflutninga svo fátt eitt sé nefnt.

Mig langar hins vegar, frú forseti, að beina sjónum í þessari umræðu að norrænu samstarfi og sess þess í utanríkismálum okkar eftir sérlega vel heppnað Norðurlandaráðsþing í Reykjavík í lok október. Í kjölfar Norðurlandaráðsþingsins skapaðist nokkur umræða í fjölmiðlum um gildi norræns samstarfs og var það upp og ofan hvort norrænu samstarfi var hampað sem einum hornsteini alþjóðasamskipta okkar eða útmálað sem þarflaus arfleifð aftan úr forneskju sem fyrir löngu hefði skilað hlutverki sínu. Sú sem hér stendur hefur gegnt formennslu í Íslandsdeild Norðurlandaráðsins undanfarin ár og hef ég eins og aðrir tekið eftir því að í almennri umræðu hefur norræna samstarfið oft verið sagt gamaldags og úrelt á tímum samrunaþróunar í Evrópu og hraðrar alþjóðavæðingar. Talað hefur verið um það sem samstarf sem orðið sé óþarft nú þegar heimurinn hefur opnast Íslendingum með öllum þeim tækifærum sem því fylgir á sviði viðskipta, menntunar, rannsókna og menningarsamskipta svo eitthvað sé nefnt.

Ekki verður um það deilt að alþjóðlegt samstarf og viðskipti hafa aldrei verið fjölþættari og umfangsmeiri og að vaxandi alþjóðavæðing hefur fært okkur Íslendingum mikla hagsæld. En það er þó rangt að horfa á norrænt samstarf og annað alþjóðlegt samstarf okkar sem andstæður því það er miklu nær að líta svo á að tengsl okkar við Norðurlöndin styrki okkur í öllu því aukna alþjóðastarfi sem við Íslendingar tökum þátt í. Norrænt samstarf er ekki einangrað frá umheiminum heldur er það þvert á móti hluti og nokkuð veigamikill hluti af aukinni alþjóðavæðingu.

Norræna samstarfið er í raun grunnurinn fyrir flest annað alþjóðasamstarf okkar hvort sem um er að ræða pólitískt, viðskiptalegt, menningar- eða menntunarlegt samstarf. Norðurlöndin eru í pólitísku tilliti bakland okkar sem við leitum til um stuðning þegar við þurfum að verja eða koma hagsmunum okkar á framfæri á alþjóðavettvangi. Við höfum í gegnum tíðina sótt, og gerum enn, styrk til þessara vinaþjóða okkar enda hefur það sýnt sig að við erum sterkari saman en hvert okkar fyrir sig.

Skýrt dæmi um þetta er auðvitað framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem við eigum stuðning nágrannaþjóða okkar vísan en Norðurlandaþjóðirnar hafa löngum verið einhuga um að styðja hver aðra á þeim vettvangi og Norðurlandaþjóðirnar hafa talið það æskilegt að eiga norræna rödd inni í öryggisráðinu. En eins og hæstv. utanríkisráðherra komst að orði er framboðið samstarfsverkefni Norðurlandanna og þannig dæmi um hvernig við Íslendingar öxlum aukna ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi í samvinnu við þessar nánustu frændþjóðir okkar.

Evrópusamruninn og tengsl okkar við Evrópusambandið er annað dæmi þar sem norrænt samstarf veitir okkur grunn og það er ljóst að Ísland og Noregur njóta góðs af norrænu samstarfi í Evrópumálum, enda er þar vettvangur til viðræðna við þau þrjú ríki ESB sem tengjast okkur nánustu böndum. Það er á þeim vettvangi sem við mætum velvilja og getum mælt fyrir áherslumálum okkar í Evrópusamstarfinu með fullum skilningi á íslenskum aðstæðum og íslenskri sérstöðu. Norðurlandasamstarfið mun eftir sem áður verða okkar mikilvægi pólitíski samráðsvettvangur í Evrópumálum og brú okkar til álfunnar hvernig sem við kjósum að haga tengslum okkur við hana.

Á viðskiptasviðinu, frú forseti, er það svo aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum sem hefur opnað íslensku atvinnulífi ný og spennandi tækifæri sem íslensk fyrirtæki hafa svarað með því að hefja kraftmikla sókn. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur verið mikil á undanförnum árum og eykst vonandi enn. Í því samhengi er stækkun EES-svæðisins að sjálfsögðu mikilvæg en aðgerðir til þess að gera Norðurlönd að einu markaðssvæði skipta líka miklu máli. Þar sem Norðurlandaþjóðirnar eru smáar hefur verið reynt að tryggja atvinnulífi þeirra sem best skilyrði en stærri heimamarkaður, og þá er ég að tala um norrænan heimamarkað, styrkir vitaskuld samkeppnisstöðu þessara þjóða verulega bæði innan Evrópu og utan Evrópu. Mig langar, frú forseti, í því sambandi að minna á að stór hluti viðskipta okkar er við Norðurlöndin og að mjög stór hluti hinnar miklu íslensku útrásar íslenskra fyrirtækja hefur einmitt verið til Norðurlandanna.

Á menningar- og menntasviðinu vil ég sérstaklega nefna hve ásókn íslenskra námsmanna er mikil til Norðurlandanna. Ég taldi sjálf til skamms tíma að verulega hefði dregið úr því vegna þess að íslenskir námsmenn sæktu núna meira til annarra landa utan Norðurlanda. En það er ríkuleg hefð fyrir því að við Íslendingar sækjum menntun okkar til Norðurlandanna, ekki síst til Danmerkur, og sú ásókn hefur ekki minnkað nema síður sé. Ég held að ég fari örugglega rétt með tölur að það séu um 1.600 íslenskir námsmenn sem nema hjá Dönum og það er ótrúlegur fjöldi í ljósi þess að íslenskir námsmenn erlendis telja um 2.200 alls. Maður hlýtur að spyrja sig, frú forseti, af hverju þetta skuli enn þá vera svona eftir að heimurinn hefur opnast Íslendingum hvort sem um er að ræða nám eða störf. Maður veltir því fyrir sér og varpar því fram hvort það kunni kannski að vera vegna þeirra gagnkvæmu félagslegu réttinda sem við njótum á Norðurlöndunum og þeirrar tilfinningar að þar séum við nánast eins og heima hjá okkur.

Norðurlöndin hafa lengi leikið stórt hlutverk í alþjóðastjórnmálum og hafa mun meiri pólitísk áhrif en hernaðar- og efnahagsmáttur þeirra segir til um. Ástæða þess er sú að löndin hafa um árabil notið ákveðinnar virðingar víða um heim. Litið hefur verið til Norðurlandanna sem fyrirmyndarsamfélaga þar sem jöfnuður og velferð ríkir og ekki síst vegna þess að þau njóta trúverðugleika sem hlutlausir og sanngjarnir aðilar sem ekki ganga erinda stórvelda á alþjóðavettvangi. Það er vegna þess sem norræn friðargæsla hefur verið eftirsótt og oft hafa Norðurlönd haft samstarf um slíka gæslu en eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra tekur íslenska friðargæslan þátt í norrænu verkefni á Sri Lanka.

Norðurlöndin hafa haft eina sérstöðu í friðargæslumálum sem ég hef áður nefnt í þessum sal og ég held að full ástæða sé til að árétta aftur hver sú sérstaða er. Það er getan til að setja málefni kvenna í forgang á átakasvæðum vegna þess að jafnréttishefðin hefur þrátt fyrir allt sterkastar rætur á Norðurlöndunum. Mig langar að minna á þá kaldhæðnislegu staðreynd að konur eru mun líklegri til að halda kyrru fyrir en karlmenn þegar átök brjótast út og að konur lenda því oftar en ekki og frekar en karlar í miðjum vítahring átaka. Að átökum loknum halda konur fjölskyldunum saman, þegar stríðsátökum linnir eru það konur og mæður sem leita týndra ástvina og það eru konur og mæður sem brauðfæða börn sín. Það eru líka konur sem þurfa að bera skömmina eftir skipulegar kynferðislegar ofbeldisaðgerðir og eru jafnvel útskúfaðar úr eigin samfélagi.

Norðurlöndunum ber í sameiningu að taka frumkvæði í því að taka mun ríkara tillit til aðstæðna kvenna á átakasvæðum og vinna að því að framfylgja þeirri alþjóðlegu vernd sem konum og börnum ber og það er vernd sem konum og börnum ber sérstaklega samkvæmt alþjóðasáttmálum. Allt eru þetta málefni sem við Íslendingar getum og eigum að láta okkur varða í samvinnu við frændþjóðir okkar því að ég tel það vera sérstaklega á þessu sviði sem við getum gert gagn í alþjóðasamfélaginu. Ég tel að fjölgun kvenna í friðargæslu- og uppbyggingarstarfi sé lykilatriði hvað þetta varðar og lít svo á að markmið okkar hljóti að vera að tryggja sem jafnastan hlut kvenna og karla í friðargæslustörfum okkar og í alþjóðastarfi á þessu sviði.

Ég ætla að árétta það, frú forseti, að þegar ég segi þetta er það ekki til að tryggja sem jafnasta stöðu og rétt kvenna samanborið við stöðu og rétt karla, heldur vegna þess að konur á átakasvæðum, konur í löndum þar sem við veitum þróunaraðstoð halda ásamt okkur hinum uppi helmingi himinhvolfsins. Og það eru sérstök viðhorf kvenna til viðfangsefna á þessum svæðum, sérstakt auga kvenna fyrir lausnum og hvers konar aðgerðir skila samfélaginu mestu, þar sem við erum komin til að veita aðstoð, sem við þurfum svo vissulega á að halda inn í þetta starf í utanríkismálastefnu okkar.