132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:36]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp til að þakka hv. þm. Guðmundi Magnússyni fyrir ræðu hans og sérstaklega það sem hann segir um samstarf við félagasamtök eins og Öryrkjabandalagið í þágu fatlaðra í fátækari ríkjum. Mig langar til að minna á að fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga þar sem flutningsmenn eru þingmenn úr öllum flokkum en sú sem hér stendur er 1. flutningsmaður hennar. Þar er lagt til að þróunaraðstoð verði aukin í 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu eigi síðar en 2015, sem fellur þá saman við þúsaldarmarkmiðin, og einnig er lögð rík áhersla á að auka samstarf ríkisvaldsins og félagasamtaka. Það má gera á mörgum sviðum. Oftast hugsar maður fyrst um Hjálparstarf kirkjunnar, Rauða krossinn, Barnaheill og önnur slík, en það eru einmitt líka hin, sem ég vil orða svo, sérhæfðu en mjög öflugu hagsmunasamtök eins og Öryrkjabandalgið sem hafa svo margt til málanna að leggja í slíku samstarfi og geta í raun gert miklu meira gagn en hin, eins og þau eru góðra gjalda verð, á ákveðnum sviðum í samstarfi okkar við fátækari ríki. Ég vil sérstaklega í því ljósi fagna orðum hv. þingmanns.