132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:46]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans prýðilegu ræðu þar sem farið var vítt yfir sviðið og komið við í hinum ýmsu málum sem tengjast utanríkismálum. Málaflokkurinn er þess eðlis að hægt er að ræða hann út í hið óendanlega og hægt að koma við á ansi mörgum sviðum, enda er það þannig að í hvert einasta skipti sem utanríkisráðherra heldur ræðu, a.m.k. frá því að ég kom á þing þótt það sé ekki langur tími og ég býst við að svo hafi verið áður, koma stjórnarandstæðingar í röðum og tala alltaf um að utanríkisráðherra hafi ekki talað um það sem þeir vildu og færa rök fyrir því að ræða hefði mátt eitthvað allt annað.

Eðli málsins samkvæmt er þetta þannig málaflokkur að hægt er að ræða mjög margt í tengslum við hann og ánægjulegt að taka þá umræðu hér. Auðvitað kemur margt til greina sem snertir okkur Íslendinga og hefur eðlilega mikið verið rætt um varnarsamningurinn við Bandaríkin og ástandið í þeim málum. Eins og við vitum eru breytingar á sviði öryggis- og varnarmála bæði hjá Íslendingum og annars staðar í heiminum. Við sjáum mjög breytta heimsmynd frá því sem var fyrir aðeins nokkrum árum. Þrátt fyrir að það sé mikið fagnaðarefni að Sovétríkin og a.m.k. stór hluti af þeirri hugmyndafræði, kommúnismanum, sé liðinn undir lok þó að hann þrífist enn því miður, með þeirri ógeðfelldu stjórn sem honum fylgdi og þeirri hættu sem okkur stafaði af slíku, enda þótt sú ógn sé horfin er ekki eins og engar ógnir séu eftir. Við stöndum nú frammi fyrir ógnum sem tengjast hryðjuverkum, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, sem eru mjög hættulegar svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það liggur fyrir að alþjóðasamfélagið þarf að vera mjög vel vakandi á öllum sviðum, og þar erum við Íslendingar ekki undanskildir, til að berjast gegn slíkri ógn sem hryðjuverk eru og alveg hárrétt sem fram kemur í ræðu hæstv. ráðherra að þar er útbreiðsla kjarnorkuvopna mikið áhyggjuefni.

Það sem snýr að okkur Íslendingum er hins vegar aðstaðan á Keflavíkurflugvelli og varnir landsins en með breyttum aðstæðum munum við þurfa að horfa á breytingar þar. Ég fagna þeim yfirlýsingum að við bjóðumst til að skoða möguleika á samstarfi á sviði þyrlubjörgunar og taka aukinn þátt í kostnaði við rekstur Keflavíkurflugvallar. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að góð sátt ríkti um þessi mál á þinginu þó svo að maður hafi vitað um sérstöðu vinstri grænna sem hafa blygðunarlaust tekið upp stefnu gamla Alþýðubandalagsins í öryggis- og varnarmálum. Hins vegar liggur hreint og klárt fyrir að fleiri flokkar eru að feta þá braut og ég held að ræða formanns Samfylkingarinnar hafi verið mjög skýr vitnisburður um það. Það var mjög athyglisvert að hlusta þá ræðu áðan þegar hv. þingmaður, sem því miður er ekki hér en fulltrúar hennar eru á svæðinu, talaði um að hún vissi ekki hver lágmarksviðbúnaðurinn væri og taldi að ekki væri þörf á miklum viðbúnaði en menn mundu skoða það. Einnig voru þær áherslur að við ættum ekki lengur heima á öryggissvæði Bandaríkjanna heldur værum að færast yfir á öryggissvæði Evrópu. Við vitum að hv. þingmaður eins og aðrir forustumenn Samfylkingarinnar eru gamlir alþýðubandalagsmenn og ekki er annað að sjá en að hér séu gömlu herstöðvaandstæðingarnir komnir með nýtt útlit á sína stefnu. Það vita allir sem vilja vita að það er ekkert að gerast í öryggis- og varnarmálum Evrópusambandsins, ekki nokkur skapaður hlutur. Og þrátt fyrir að menn hafi reynt í áratugi að hnoða einhverju saman þar, virðulegi forseti, hefur það vægast sagt gengið mjög illa. Enginn stjórnmálaskýrandi heldur því fram að eitthvað sé að fæðast á þeim vettvangi, ekki nokkur einasti. Því er svolítið sérstakt að heyra þessar ræður hér á vettvangi þingsins.

Ég get þess vegna ekki dregið aðra ályktun en þá að menn hafi ekki áhuga á því í Samfylkingunni að hafa varnarlið hér á landi. Þeir gera lítið úr þeirri þörf okkar að hafa varnir og tala um að við séum á áhrifasvæði Evrópu. En allir sem eitthvað þekkja það mál og skoða það burt séð frá öllum aðstæðum spyrja: Hvar færu öryggishagsmunir okkar hugsanlega saman með Evrópulöndum? Það er eitt land sem við höfum átt öryggishagsmuni með í Evrópu og það er Bretland. Bretar hafa ekki, alveg sama í hvaða pólitíska litrófi menn þar eru, verið fylgismenn þess að þétta öryggisnet eða ná einhverju varnarbandalagi innan Evrópusambandsins, þvert á móti. Það er alveg sama í hvaða flokki ríkisstjórnir hafa verið á undanförnum áratugum í Evrópu. Þeir hafa verið að styrkja tengslin við Bandaríkin. Það virðist vera sama hvernig ríkisstjórnirnar eru samsettar, annars vegar í Bretlandi og hins vegar í Bandaríkjunum, það hefur verið rauður þráður í öryggis- og varnarmálum þessara þjóða að þær hafa starfað saman. Stundum hefur það verið gagnrýnt eins og við þekkjum en ég held að menn séu sammála um að það hafi verið afskaplega gott fyrir heiminn að þessar þjóðir hafi náð saman eins og raun ber vitni og hægt að nefna fjölmörg dæmi því til staðfestingar.

Annað sem ég hef tekið eftir í umræðunni, virðulegi forseti, er að menn að tala enn og aftur um og koma inn á það að mjög æskilegt væri að við gengjum í Evrópusambandið. Notuð eru ýmis orð og menn tala um það undir hinum og þessum formerkjum en menn ræða þetta hér í fullri alvöru. Ég er formaður í þingmannanefnd EFTA og hef sett EFTA-fundina á þessu kjörtímabili. Þar höfum við fengið fulltrúa frá framkvæmdastjórninni, fulltrúa frá Evrópusambandinu sem farið hafa yfir stöðuna í Evrópu hjá Evrópusambandinu. Ég ætla, með leyfi forseta, að þýða lauslega það sem við fengum síðast þar sem ég ætla ekki að lesa hér upp úr enskum texta. Þetta er ekki texti frá þeim sem hér stendur, ég skrifaði ekki þennan texta. Þetta er ekki texti frá aðilum sem hafa verið gagnrýnir á Evrópusambandið, þetta eru þvert á móti, virðulegi forseti, aðilar sem eru í kjarna Evrópusambandsins og eru miklir fylgjendur Evrópusamstarfsins og ekki bara eins og það er núna heldur vilja þétta það, dýpka það. Hvað segja þessir aðilar, virðulegi forseti? Þeir segja að ekki sé auðvelt að vera núna eins og þeir kalla „policy makers“ eða stefnumótendur í Evrópu í dag. Og án þess að vilja fara út í að vorkenna sér of mikið þá sé einfalt að segja að það hafi aldrei verið erfiðara, vegna þess að þeir horfa fram á stöðu sem er svo gríðarlega erfið. (Gripið fram í.) Nú er ég, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að lesa upp úr skýrslu eftir Charles McCreavy. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þingmaður vill endilega heyra meira úr ræðunni og ég mun þess vegna halda áfram þannig að ég geti upplýst hv. þingmann um hvað hér er á ferðinni. Hann er að ræða um innri markaðinn og Evrópusambandið.

Hann fer yfir þau vandamál sem eru til staðar í mörgum þessara landa, þetta eru kjarnalöndin, og þar er atvinnuleysi yfir 10%. Ég tek fram að þetta er áður en hinir skelfilegu atburðir urðu í Frakklandi. Þetta var fyrr í haust. Síðan horfa menn fram á tvenns konar vandamál, annars vegar sem tengist aldurssamsetningunni í álfunni, að hið vinnandi afl er að eldast og þar er mjög margt fólk sem er fara á lífeyri og ekki eru innstæður í lífeyrissjóðunum fyrir þetta fólk. Það er ólíkt því sem við horfum fram á á Íslandi í dag. Hér segir að ekki sé einungis um að ræða eitthvert akademískt mál, menn horfi bara fram á að vera ekki með nægan hagvöxt til að halda uppi þeim lífsstandard sem þeir vilji sjá.

Frá því að ég kom þarna inn hafa á hverjum einasta fundi komið menn sem ræða þessi mál á þessum forsendum. Allir sem vilja skoða Evrópumálin með einhverri sanngirni ættu að kynna sér þetta aðeins, bara líta í eitt, tvö erlend tímarit kannski, kynna sér stöðuna í Evrópu hjá Evrópusambandinu og fara að átta sig á hvað er í gangi þar. Ég er alveg sannfærður um að ef menn færu með einhverri sanngirni yfir það mál mundu þeir ekki koma hér í löngum röðum og tala um það í fullri alvöru að við þyrftum nú að fara að huga að því að sækja um.

Ég tók þátt í stjórnmálum á þessum vettvangi löngu áður en ég settist á þing og á þeim tíma þegar við gerðumst aðilar að EES var mikið af kollegum manns í Evrópu sem sögðu að við værum að missa af lestinni, missa af Evrópuhraðlestinni. Það kæmi illa niður á okkur Íslendingum ef við værum ekki þar inni og við mundum ekki njóta góðs af því samstarfi sem þar er. Það hefur enginn, virðulegi forseti, ekki nokkur einasti maður sagt þetta við mann á undanförnum árum, það hefur ekki hvarflað að nokkrum einasta manni enda engin ástæða til. Það liggur fyrir að við tókum hárrétta ákvörðun að halda okkur við EES-samstarfið en sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu þegar sumar vinaþjóðir okkar gerðu það. Ég held að tími sé kominn til að afrugla aðeins þá umræðu.

Ég vil nú gera eitt sem ég geri ekki oft og það er að hrósa hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að fara hér aðeins yfir sjávarútvegsþátt málsins, sem er samt bara lítill þáttur. Það liggur alveg fyrir, og gerð hefur verið úttekt eftir úttekt, að við þyrftum að undirgangast þá stefnu sem þar er, stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Og það liggur hreint og klárt fyrir að þeir hafa ekki náð neinum þeim markmiðum, virðulegi forseti, sem þeir hafa ætlað sér á þeim vettvangi.

Það er svo magnað, virðulegi forseti, að stofnunin EFTA og módelið EES-samningurinn, sem margir hafa spáð dauða, væri að verða úreltur o.s.frv., menn líta nú til þess að þetta sé gott módel, sérstaklega þegar menn eru að huga að stækkun og að frekara samstarfi innan Evrópusambandsins. Og ég sé þar fyrir mér, virðulegi forseti, ýmis sóknarfæri, margvísleg sóknarfæri fyrir Íslendinga á þessu sviði. Ég tel að við þurfum að gera enn meira af því en við höfum gert nú þegar að gera fríverslunarsamninga og tvíhliða skattasamninga — að vísu eru skattasamningar eðli máls samkvæmt ekki á þeim vettvangi — en fríverslunarsamninga á þeim vettvangi og setja aukinn kraft í slíkt. Ég held að við ættum líka að vera þeir aðilar innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem ættu ýta undir það að við náum góðum samingum á þeim vettvangi. Það yrði auðvitað albest. Það liggur hins vegar fyrir að ef við ekki náum samningi á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fyrr en seinna mun heimurinn fara meira út í hefðbundin fríverslunarsvæði eins og við þekkjum á vettvangi Evrópu og þekkist víða annars staðar.

Ég held að tími sé kominn til að við skilgreinum okkur betur varðandi landbúnaðinn, þ.e. hinn hefðbundna landbúnað, sem er kannski eina sviðið þar sem við Íslendingar höfum verið á bremsunni hvað varðar alþjóðlega fríverslunarsamninga, annars staðar höfum við verið framarlega í flokki með þjóðum sem vilja fá frelsi í viðskiptum. Að við skilgreinum betur hvað við viljum ná fram þar og hvað við viljum vernda með það að markmiði að opna frekar markaði okkar fyrir það sem skilgreint er almennt sem landbúnaðarafurðir. Það er skoðun mín, virðulegi forseti, og ég hef viðrað hana áður á þessum vettvangi.

Ef við ætlum að hjálpa okkar minnstu bræðrum annars staðar meðal hinna fátækari þjóða þá er hugsanlega besta leiðin til þess að opna markaði okkar. En það þarf meira til. Við sjáum að þau lönd þar sem ekki er frelsi og lýðræði og sem búa við ógnarstjórn hafa ekki getað notfært sér slík tækifæri. Við þekkjum meira að segja heilu álfurnar, því miður, og þó aðallega eina álfu sem hefur ekki náð njóta þess sem lífið hefur upp á bjóða, ef þannig má að orði komast. Sumpart er það og kannski að stórum hluta því að kenna að þar hafa ríkt ógnarstjórnir þar sem mannréttindi hafa ekki verið virt og markaðsbúskapur ekki fengið að blómstra.

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka í þessum efnum en ég hef ekki lengri tíma núna þannig að ég læt nú lokið máli mínu.