132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek það ekkert nærri mér þó að Framsóknarflokkurinn hafi þessi stjórnsýslulegu vinnubrögð. Ég spurði áðan hv. þingmann hvernig það hefði verið með ákvörðunartökuna um innrásina í Írak, stuðning við innrásina í Írak: Lá þar lýðræðisleg ákvörðun að baki? Hefur hv. þingmaður óskað eftir því innan flokksins að sá stuðningur verið dreginn til baka og þjóðin beðin afsökunar?

Hvað flokkssamþykktir varðar þá dreg ég ekki í efa mismikla söguþekkingu þingmannsins á þeim. Ég var einmitt að hlusta á upprifjun frá þingmanninum um ályktanir flokksins um hlutafélagavæðingu og einkavæðingu Ríkisútvarpsins og Rariks. Þar bar mönnum alls ekki saman. Formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra, og hæstv. iðnaðarráðherra voru með allt aðra söguskýringu en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson um samþykktir flokksins um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Hvað varðar samþykktir flokksins frá fyrri árum þá sagði jú hæstv. iðnaðarráðherra eitthvað á þessa leið: Ja, það hafa nú komið nokkrar samþykktir síðan. Söguþekking hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á samþykktum Framsóknarflokksins er vafalaust mikils virði en kannski verður lítið farið eftir þeim.