132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:47]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki alveg nógu gott að flýja yfir í annað mál þegar menn eru að ræða hér skýrslu um utanríkismál. Við skulum ræða þau mál þegar að þeim kemur en halda okkur við það efni sem er á dagskrá sem eru utanríkismálin.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst eins og viðbrögð hv. þingmanns einkennist af vonbrigðum (Gripið fram í.) sem er nokkurt undrunarefni. Ég veit ekki betur en ég sé að lýsa stefnu sem er mjög svipuð því sem hv. þingmaður boðar fyrir hönd síns flokks. Ég hélt að menn ættu að gleðjast yfir því að skoðanir lægju að einhverju leyti saman, og jafnvel að verulegu leyti, í stóru máli. En það er eins og hv. þingmanni finnist þetta ómögulegt og sé að reyna að tala málið út af borðinu. Kannski vill hann ekki að þær skoðanir sem hann aðhyllist nái fram að ganga, kannski vill hann ekki að aðrir séu sammála honum, kannski vill hann sitja einn að skoðunum sínum.

Það leiðir til þeirrar niðurstöðu, virðulegur forseti, að skoðanir hans ná ekki fram að ganga og ég held að það hljóti að vera hv. þingmanni umhugsunarefni að stefna málinu frekar í þann farveg en að ná ávinningi. Ég dreg það fram að í þessum málum eigum við verulega samleið, a.m.k. hvað varðar þá niðurstöðu að vera ekki hlynntir því að ganga í Evrópusambandið.