132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:54]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör að mörgu leyti og hef fullan skilning á því að hann þarf að fara annað til þess að ræða þessi mál við fjölmiðla.

Ég vil í upphafi taka algjörlega undir þá ágætu hugmynd hæstv. ráðherra að ef til vill ættum við að taka upp annað form á þessari umræðu. Það er alveg rétt sem hann segir að hér eru menn að ræða margvísleg mál í einu, margt er undir og það er hugsanlega erfitt að ná fram kjarna sumra málanna.

Ég varpaði nokkrum spurningum fram til hæstv. ráðherra í dag og hann svaraði þeim flestum. Það er ein spurning sem ég vil ítreka við hæstv. ráðherra. Ég innti hann eftir því í dag hvort enn væri í gildi yfirlýsing sem þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, gaf út 18. mars 2003 og var birt á vef Hvíta hússins 26. mars sama ár í tengslum við innrásina í Írak. Í þeirri yfirlýsingu er Bandaríkjamönnum gefin heimild til þess að fljúga yfir og um íslenska flugstjórnarsvæðið og jafnframt til þess að nota Keflavíkurflugvöll ef þörf krefur. Þessi heimild er sett fram en fyrr í yfirlýsingunni er vísað til þess að Bandaríkjamenn telji öryggi sínu alvarlega ógnað vegna aðgerða og árása hermdarverkamanna, af einræðisherrum og kúgurum og þess getið að þeir telji að stuðningur frá Íslandi skipti máli.

Þessi heimild er þannig orðuð að ég tel að Bandaríkjamenn gætu alveg litið svo á að þeir hefðu heimild til þess umdeilda flugs sem við höfum rætt hér nokkuð og ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra um það í dag. Mig langar einungis að spyrja hann: Er þessi yfirlýsing enn þá í fullu gildi? Eða líta menn svo á að hún hafi hafi fallið niður þegar lýst var yfir formlegum endalokum innrásarinnar (Gripið fram í.) af hálfu innrásaraðila?