132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:11]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um eitt af stærstu hagsmunamálum ungbarnafjölskyldna og ástæða til að þakka fyrirspyrjanda að taka þetta mál upp hér. Þetta er mál sem minn flokkur er mjög að skoða, þ.e. hvernig hægt sé að brúa þetta bil fyrir ungbarnafjölskyldu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til ungbörnin fá vist á leikskólum. Full ástæða er til þess að stjórnmálaflokkar átti sig á því að þetta er mál sem verður að setja í forgang og leysa á næstu missirum.

Ég er ekkert mjög bjartsýn, virðulegi forseti, meðan núverandi stjórnarflokkar eru við völd á að það takist vegna þess að þegar er byrjað að grafa undan núgildandi fæðingarorlofslögum eins og hæstv. ráðherra veit. Fæðingarorlofslögin kveða á um að greiða eigi 80% af tekjum og við lögðum af stað með að miða við síðustu 12 mánuði. En nú er búið að lengja viðmiðunartímann með þeim afleiðingum að fæðingarorlofið er í raun og sanni ekki nema 70% af tekjum viðkomandi sem fer í fæðingarorlof og þetta vill hæstv. ráðherra ekki leiðrétta. Það hefur komið fram m.a. í félagsmálanefnd.