132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

254. mál
[11:23]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns var aflað upplýsinga frá öllum ráðuneytum um þessi atriði. Þar sem ég hef skamman tíma til að svara þessari ítarlegu fyrirspurn mun ég reyna að draga upplýsingarnar saman svo sem kostur er og vonandi tekst það innan tilskilins tímaramma.

Sum ráðuneyti og stofnanir hafa unnið verkefni sín innan fjárlagaramma eins og gera má ráð fyrir þegar um er að ræða endurskoðun á löggjöf eða nálgun í verkefnum við úttektir út frá kynjasjónarmiðum. Verkefni tengd framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og sérmerkt jafnréttismálum eru sem hér segir:

Félagsmálaráðuneytið gerir ráð fyrir að verja 11,2 millj. kr. árlega næstu þrjú ár til verkefna á framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og að auki 6,5 millj. kr. til verkefnisins Karlar til ábyrgðar. Umhverfisráðuneytið gerir ráð fyrir að verja hálfri millj. kr. á þessu ári og næsta vegna verkefnisins Konur og Staðardagskrá 21. Dómsmálaráðuneytið ver á þessu stigi um 1,5 millj. kr. til vinnu að markmiðum áætlunarinnar. Áætluð bein útgjöld menntamálaráðuneytisins vegna framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum í ár og á næsta ári eru 6,7 millj. kr., sjávarútvegsráðuneytið áætlar kostnað vegna tveggja verkefna árin 2005 og 2006 allt að 1,3 millj. kr., sérgreind framlög heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis hafa frá gildistöku verið 1.850 þús. kr. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur hingað til varið um 2,5 millj. kr. til verkefna á grundvelli áætlunarinnar. Auk þess hefur ráðuneytið ásamt landbúnaðarráðuneytinu tekið þátt í verkefninu Lifandi landbúnaður en kostnaður við það er að hluta til greiddur af Evrópusambandinu.

Árið 2004 greiddi landbúnaðarráðuneytið 800 þús. kr. til þessa verkefnis og 200 til annarra. Árið 2005 hefur landbúnaðarráðuneytið varið hálfri millj. kr. til verkefnisins Lifandi landbúnaður og 450 þús. kr. til annarra. Áætlaður heildarkostnaður fjármálaráðuneytisins vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í áætluninni er 1,5 millj. kr. Utanríkisráðuneytið hefur árlega veitt 2,5–3 millj. kr. til verkefna sem tengjast framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum en á næsta ári er áætlað að framlag til jafnréttisstarfs á vegum UNIFEM hækki í 20 millj. kr. Kostnaður tengdur jafnréttisáætlun utanríkisráðuneytisins er áætlaður um 300 þús. kr. á ári.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um eflingu starfs- og endurmenntunar ófaglærðra kvenna á vinnumarkaði vil ég nefna eftirfarandi atriði: Félagsmálaráðneytið sendi starfsmenntaráði erindi fyrr á þessu ári þar sem vísað er í gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og verkefnið Starfs- og endurmenntun sem ætlað er að gera konur hæfari til að takast á við verkefni í ört vaxandi tækniþróun á vinnumarkaðinum. Starfsmenntaráð hefur þegar tekið málið fyrir og samþykkt að taka mið af því við úthlutanir á næsta ári að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra kvenna á vinnumarkaði. Ekki er á þessu stigi hægt að fullyrða hve miklu fé verður úthlutað til þeirra verkefna. Heildarúthlutanir sjóðsins á næsta ári munu nema 50–60 millj. kr. og talsverðum hluta þess fjár verður varið sérstaklega í þágu þess hóps sem hér um ræðir.

Í tengslum við gerð kjarasamninga beitti ríkisstjórnin sér fyrir því að til ársins 2007 yrði árlega varið 130 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð sem skyldi greiðast til fræðslusjóða verkalýðsfélaganna. Ég treysti því, hæstv. forseti, að hluti af þeim fjármunum nýtist ófaglærðum konum á vinnumarkaði.

Síðast en ekki síst vil ég nefna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við mat á gildandi kjarasamningum þann 15. nóvember sl. Þar kemur fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að beita sér fyrir sérstöku átaki til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra og einstaklinga með litla menntun. Áætlað er að kostnaður vegna þessa nemi um 100 millj. kr. Hér er ýmislegt tínt til, hæstv. forseti.

Fyrir liggur, í þriðja lagi, að það er verkefni ríkisstjórnarinnar og allra ráðuneyta að setja sér jafnréttisáætlanir. Í handbók Stjórnarráðsins er þegar til samræmd jafnréttisáætlun sem sum ráðuneyti vinna eftir. Önnur ráðuneyti og stofnanir hafa sett sér ítarlegri jafnréttisáætlanir með áætlun um aðgerðir á grundvelli leiðbeininga frá Jafnréttisstofu þannig að jafnréttisáætlanir ráðuneytanna eru að einhverju leyti þegar samræmdar. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna munu í samvinnu við Jafnréttisstofu sjá til þess að áætlanirnar séu að fullu samræmdar og að því er unnið, hæstv. forseti.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður hvað líði úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun kvenna og karla sem taka aftur til launa og hvers konar frekari þóknana og hvenær megi vænta niðurstöðu. Í yfirlýsingu sem gefin var í tengslum við gildandi kjarasamninga við opinbera starfsmenn er m.a. að finna þessi orð, með leyfi forseta:

„Það er yfirlýst stefna ríkis að draga úr þeim launamun karla og kvenna sem ekki verður skýrður nema á grundvelli kyns. Með nýju launakerfi gefst tækifæri til að vinna að því markmiði. Með það í huga mun fjármálaráðherra láta gera úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna sem starfa hjá stofnunum ríkisins á samningstímabilinu“

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu liggur fyrir að þar sem nýja launakerfið tekur ekki gildi fyrr en í maí á næsta ári og verður ekki endanlega útfært fyrr en ári síðar verður ekki hægt að vinna að slíkri úttekt á áhrifum launakerfisins fyrr en á seinni hluta samningstímabilsins. Lögð er áhersla á að það verði gert og því verður fylgt eftir af minni hálfu.

Að lokum vil ég geta þess, hæstv. forseti, að í félagsmálaráðuneytinu réðumst við gegn kynbundnum launamun strax á síðasta ári. Við munum viðhalda þeirri rannsókn sem þá hófst. Það er nauðsynlegt að gera það reglulega. Ég hef sömuleiðis lagt á það þunga áherslu gagnvart öllum stjórnendum stofnana sem undir félagsmálaráðuneytið heyra að það verði gert í þeim stofnunum líka. Það verkefni er farið af stað. Vinnumálastofnun ríður þar á vaðið. Ég hef skrifað samráðherrum mínum bréf og hvatt þá til hins sama og önnur ráðuneyti hafa þegar haft samband við félagsmálaráðuneytið og óskað leiðbeiningar um þau mál.