132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

254. mál
[11:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta alveg ágætis samlíking hjá hv. 4. þm. Suðvesturkjördæmis þegar hún bar fjárveitingar sem ráðherrann taldi upp saman við það sem landbúnaðarráðherra fær vegna íslenska hestsins. Þó að hann sé alls góðs maklegur þá er um miklu stærra mál að ræða þegar verið er að tala um að það þurfi fjármagn til þess að jafnréttisáætlunum sem gerðar eru og áætlunum sem samþykktar eru á Alþingi sé fylgt eftir.

Ég vil þakka ráðherranum fyrir svörin og segja það að ég hef fulla trú á því að ráðherrann vilji leggja metnað sinn í að ýta jafnréttismálunum áfram og ég óska honum alls góðs í því. En þetta er verkefni sem þýðir að það þarf að sýna mikla árvekni, m.a. gagnvart öðrum ráðuneytum. Það þarf reglubundið að fylgjast með því að þau sinni þeim áætlunum sem þau eiga að gera og það hefur verið brotalöm á allri framkvæmdinni. Við höfum farið yfir þetta hjá hverju ráðuneyti fyrir sig. Ég gerði það t.d. í fyrra og það vantaði mikið upp á að síðustu áætlanir á undan þessari sem var samþykkt fyrir einu og hálfu ári hefði verið hrint í framkvæmd. Ég tek eftir því í þessari fjárveitingu að það eru 1.850 þús. frá heilbrigðisráðuneytinu, en þó kemur fram í áætluninni að þeir ætluðu að verja 70 millj. í þetta. En hér erum við að ræða áætlun fram til ársins 2008 en nú er árið 2005 og það hefur einungis litlu verið varið í þetta til þessa.

Ég beini því til ráðherrans varðandi jafnréttisáætlanirnar, að þær verða að vera samræmdar og það verður að taka á í þessum áætlunum þannig að forstöðumenn ríkisstofnana veiti viðbótarlaun til karla jafnt sem kvenna, en þar er mikil brotalöm á.