132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Jafnréttisfræðsla fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana.

256. mál
[12:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það yrði stórkostlegt afrek hjá hæstv. félagsmálaráðherra ef honum tækist að draga karlkyns kollega sína á námskeið til að kenna þeim hvernig iðka eigi jafnrétti í framkvæmd. Ég er viss um það að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kann að vera honum laundrjúg í þeirri viðleitni.

Ég tek undir með stallsystur minni, hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, að sérstaklega væri eftirsóknarvert ef tækist að koma hæstv. landbúnaðarráðherra á slíkt námskeið. Hins vegar er ég stöðugt á einu slíku námskeiði. Það að vera í Samfylkingunni og í þingflokki Samfylkingarinnar, þar sem jafnrétti sést í reynd, er sennilega heilladrýgst öllum þeim sem með einhverjum hætti búa yfir leyndum fordómum. Þess vegna vil ég segja að kannski ætti hæstv. félagsmálaráðherra að íhuga að koma þessum ráðherrum, sérstaklega hæstv. landbúnaðarráðherra, í starfskynningu hjá þingflokki Samfylkingarinnar.