132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Barnabætur.

197. mál
[12:09]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Fyrsta spurningin er:

„Hver er afstaða ráðherra til þess að greiðslur barnabóta verði ótekjutengdar og hver yrði kostnaðurinn fyrir ríkissjóð?“

Einn af áhersluþáttunum í stefnu núverandi ríkisstjórnar er, eins og sjá má í stefnuyfirlýsingu hennar, að auka beinan stuðning við barnafjölskyldur. Það skref hefur þegar verið tekið með umfangsmiklum breytingum á ákvæðum barnabóta í tekjuskattslögum sem samþykktar voru í lok síðasta árs og koma til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árunum 2006 og 2007. Breytingarnar, sem fyrst og fremst miða að því að draga verulega úr tekjutengingu barnabóta, munu kosta ríkissjóð 2,4 milljarða kr. árlega þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Sú fjárhæð kemur til viðbótar 5,1 milljarði kr. sem áætlað er að verði greiddar barnabætur á árinu 2005, þ.e. samtals 7,5 milljarðar kr. á árinu 2007. Þetta svarar til 47% hækkunar á greiðslu barnabóta á næstu tveimur árum.

Sem fyrr segir fela umræddar breytingar á barnabótakerfinu í sér að verulega er dregið úr tekjutengingum þeirra. Breytingunum má skipta í tvennt:

Í fyrsta lagi er hlutur ótekjutengdra barnabóta sem greiddur er með börnum yngri en sjö ára aukinn með 50% hækkun bótafjárhæða. Þannig fara bætur með hverju barni úr liðlega 37 þús. kr. á ári 2005 í 48 þús. kr. 2006 og síðan í 56 þús. kr. árið 2007. Heildarfjárhæð ótekjutengdra barnabóta fer því úr 1,1 milljarði kr. í tæpan 1,7 milljarða.

Í öðru lagi eru fjárhæðir tekjutengdu barnabótanna hækkaðar um 10% frá ársgrunni 2006. Í þriðja lagi munu viðmiðunarmörk tekna vegna tekjutengdra barnabóta hækka um 50% á næstu tveimur árum eða um 25% hvort ár. Í fjórða lagi er skerðingarhlutfall tekna við ákvörðun barnabóta lækkað um 1% eða úr 3% í 2% með einu barni, úr 7% í 6% með tveimur börnum og úr 9% í 8% með þremur börnum eða fleiri. Þessar breytingar munu hafa í för með sér verulegar kjarabætur fyrir barnmargar fjölskyldur með lágar tekjur. Þannig munu barnabætur hjóna með þrjú börn, tvö yngri en sjö ára, með 250 þús. kr. í mánaðarlaun, hækka úr 368 þús. kr. á ári í 512 þús. kr. á ári eða um 40% þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda á árinu 2007. Þessar breytingar á barnabótum fela í sér 12 þús. kr. hækkun á mánaðarlegum ráðstöfunartekjum umræddrar fjölskyldu.

Ef ríkisstjórnin hefði valið þá leið sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr um, þ.e. að afnema tekjutengingu barnabóta að óbreyttum þeim fjárhæðum og viðmiðunarmörkum sem gilda fyrir árið 2005, hefði kostnaður ríkissjóðs meira en tvöfaldast, farið úr rúmlega 5 milljörðum kr. í tæplega 12 milljarða kr., þ.e. aukist um tæpa 7 milljarða kr. Ráðstöfunartekjur ofangreindrar fjölskyldu hefðu þrátt fyrir þá miklu útgjaldaukningu hækkað minna við þá breytingu, þ.e. um 11 þús. kr. á mánuði, samanborið við þær breytingar sem þegar hafa verið samþykktar. Við þá breytingu, þ.e. brottfall tekjutengingar hefðu ráðstöfunartekjur jafnstórrar fjölskyldu með 1,5 millj. kr. á mánuði, þ.e. sexfalt hærri tekjur, hins vegar hækkað um 42 þús. kr. á mánuði eða hálfa milljón á ári. Þetta dæmi sýnir glöggt hvers vegna sú leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara varðandi breytingar á barnabótakerfinu varð fyrir valinu en ekki sú sem þingmaðurinn spyr um.

Hv. þingmaður spyr síðan hver staðan sé í OECD-löndum. Innbyrðis samanburður á barnabótakerfum einstakra aðildarríkja OECD er ýmsum annmörkum háður, ekki síst vegna þess hversu misjafnlega þau eru uppbyggð. Flest aðildarríkjanna meðhöndla barnabætur sem félagslegar bætur án nokkurrar tekjutengingar og án nokkurs samspils við skattkerfið. Hins vegar eru einhver dæmi þess að veittur sé sérstakur skattafsláttur vegna barna, þ.e. frádráttur frá skattstofni án þess að hann komi til beinnar útborgunar. Að minnsta kosti þrjú ríki, auk Íslands, eru með blandað kerfi, þ.e. bæði tekjutengdar og ótekjutengdar bætur. Það eru Ítalía, Lúxemborg og Tékkland. Tvö ríki, Kanada og Nýja-Sjáland, hafa eingöngu tekjutengdar bætur meðan þrjú ríki, þ.e. Grikkland, Kórea og Mexíkó, greiða engar barnabætur.

Þá var spurt um afstöðu ráðherra til þess að greiða barnabætur til 18 ára aldurs og hvaða útgjöld það hefði í för með sér fyrir ríkissjóð. Ýmis vandamál væru samfara því að færa barnabótaaldurinn upp í 18 ár. Gildandi skattkerfi byggir alltaf aldursviðmiðun við 16 ár og tengir þannig saman fjölskyldur. Eftir að þeim aldri er náð verður barnið hins vegar sjálfstæður skattþegn með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja. Þannig fær 16–18 ára barn sjálfstæðan rétt til persónuafsláttar sem gjarnan er nýttur, a.m.k. að hluta. 15 ára barn hefur hins vegar ekki þennan rétt og afli það tekna ber því að greiða 4% tekjuskatt fari tekjurnar yfir tæpar 100 kr. á ári. Á hinn bóginn njóta foreldrar þessa barns barnabóta ef tekjur þeirra eru undir viðmiðunum barnabóta, sem eru undir 125 þús. kr. á mánuði. Breytingin sem hv. þm. spyr um mundi því kosta verulega uppstokkun á gildandi skattkerfi.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu eru börn á aldrinum frá 16 upp í 18 ára tæplega 9 þúsund talsins. Engin leið er að áætla kostnað við upptöku barnabóta fyrir 16 og 17 ára, sé miðað við gildandi kerfi, þar sem engar upplýsingar liggja fyrir í gagnabönkum skattkerfisins um foreldra viðkomandi einstaklinga þar sem þeir eru taldir sjálfstæðir skattþegnar.