132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:40]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessar umræður koma mér mjög á óvart. Það er verið að tala um að fara eftir dagskrá sem löngum hefur verið krafa stjórnarandstöðunnar.

Í annan stað virðist mér menn reyna að stækka sig ofurlítið á því dagskrármáli sem heitir Réttarstaða samkynhneigðra. Við skulum bara ganga í það í friði og án hávaða að bæta réttarstöðu samkynhneigðra og gera það ekki að einhverju uppþotsmáli í þinginu. Um þetta er fullt samkomulag. Við erum ýmsir sem höfum verið þeirrar skoðunar að þörf sé á frumvarpi eins og þessu, eins og fram hefur komið í opinberum yfirlýsingum á ýmsum tímum, án þess að maður hafi reynt að tylla sér á tá eða stökkva upp á stein þess vegna til að láta bera á sér. Ég held að rétt sé að menn haldi ró sinni og gangi með alvöru að þessu máli og án þess að vera með uppþot.