132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur svo oft farið með þessa rullu í þessum ræðustóli og ævinlega vegna þess að hún er ómálefnaleg. Það er svo erfitt að eiga orðastað við hæstv. ráðherra þegar hún er eins ómálefnaleg og hún er. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðherra veit vel að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögu um sjálfstæða orkustefnu. Hún veit líka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er ekki á móti virkjunum. (Iðnrh.: Hvar má virkja?) Hvar má virkja? spyr hæstv. ráðherra. Ætlast hæstv. ráðherra til að ég standi í ræðustól Alþingis og segi: Það má virkja Jökulsá á Fjöllum? Auðvitað ekki. (Gripið fram í.) Nei. Við skulum ræða þessi mál, hæstv. forseti, á málefnalegum grunni. Við höfum tækifæri til að gera það nú með málum hæstv. iðnaðarráðherra. En við getum ekki látið nýtingarhagsmuni orkufyrirtækjanna einna stjórna þar för. Það er heila málið. Það eru aðrir hagsmunir í húfi. Hæstv. iðnaðarráðherra verður að sætta sig við að hún er ekki ein í heiminum. Ég ætla að fá að ljúka andsvari mínu á því að vitna til orða Sigurðar heitins Þórarinssonar líffræðings sem sagði á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílóvattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.“

Heimilum okkur nú að ræða um þetta hvort tveggja í einni spyrðu; hagsmuni þeirra sem vilja mæla fossana í unaðsstundum og hagsmuni hinna sem vilja mæla þá í kílóvattstundum. Ræðum þetta saman en ekki á þeim nótum sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur hér til.