132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:28]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu en ég beindi spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra en fékk því miður ekki svör. Hún var eitthvað á þá leið hvað lægi svo mikið á að fara með þetta frumvarp í gegn. Ég nefndi hvort það væru þessi þrjú álver sem hafa verið nefnd til umræðunnar, eitt á Suðurnesjum, eitt á Norðurlandi og síðan í Straumsvík og þess utan minntist ég lítillega á að tvö álver væru í byggingu.

En ég taldi að það væri brýnna að fara að ræða þá háu reikninga sem fólk er að fá við þessar breytingar, fara yfir þá stöðu og ýmis önnur mál sem ég hefði talið miklu brýnna að fara í og hefði viljað fá þá umræðu um þau. Ég hef verið að velta því fyrir mér þessa dagana, hvað er það sem liggur á? Stundum veltir maður því fyrir sér að auðvitað finnur iðnaðarráðherra ýmis mál brenna á sér, t.d. byggðamálin og hún gerir ekkert þar, ég veit ekki hvers vegna það er. Síðan eru það gengismálin í iðnaðinum, hátækniiðnaðurinn sem kvartar og nánast allur útflutningsiðnaðurinn. Þá velti ég því fyrir mér hvort verið sé að fara fram með svona mál til að láta líta út fyrir að eitthvað sé að gerast. Ég veit það ekki. Maður fer óneitanlega að velta þeirri spurningu fyrir sér.

Í sjálfu sér er frumvarpið ekki ósanngjarnt, þ.e. að þeir sem fá að rannsaka hafi forgang að nýtingu orkunnar. Það er ekkert ósanngjarnt í sjálfu sér. En það sem þarf að fara yfir og er gagnrýnisvert er að ríkisstjórnin, með hæstv. iðnaðarráðherra í forustu, leggur öll frumvörp og áætlanir um vatnsvernd til hliðar og einnig er gagnrýnisvert hvernig á að úthluta rannsóknarleyfunum. Mér finnst það ámælisvert. Við ræddum það einmitt þegar frumvarpið var til umræðu síðasta í vor, hvernig ætti að úthluta rannsóknarleyfunum. Það var komið á ákveðinn farveg. Skipa átti nefnd sem í áttu að vera fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum. Nær hefði verið að hæstv. ráðherra hefði gengið frá lausum endum og notað tímann, en það er ekki. Ekki hefur heldur verið gengið frá ýmsum hnökrum á vatnsnýtingarfrumvarpinu sem er nú til umræðu í iðnaðarnefnd og það er mjög ámælisvert.

Hv. formaður iðnaðarnefndar hefur ekki treyst sér til að ræða efni frumvarpsins að miklu marki heldur hefur mál hans snúist um heimaaðila, að þeir fái að virkja. En ef maður les frumvarpið þá er ekki hægt að sjá að þetta snúist um heimaaðila. Ef það eru einhverjir heimaaðilar hljóta að vera einhverjir aðkomumenn líka. Þessi umræða hjá hv. formanni iðnaðarnefndar minnir frekar á umræðu sem fer fram á sveitaböllum. Aðkomumenn og heimaaðilar. Frumvarpið snýst um rannsóknarleyfi. Ég átta mig í rauninni ekki á hvað menn eru að fara með svona umræðu. Ég bý í Skagafirðinum og þessi umræða teygir sig alla leið þangað norður. Þar eru svokallaðir heimaaðilar sem vilja fá að virkja eða rannsaka og mér skilst að þessir umræddu heimaaðilar — það kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar — væru m.a. Kaupfélag Skagfirðinga og aðilar tengdir þeim, Rarik. Það væri fróðlegt að fá það upp hjá hv. formanni iðnaðarnefndar hvort þetta séu aðilarnir, umræddir heimaaðilar, og hverjir séu þá aðkomumenn í þessu máli.

Áður en við höldum lengra með þá umræðu er rétt að rifja upp fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir hæstv. iðnaðarráðherra um orkunýtingu í Skagafirði, eða á Norðurlandi vestra réttara sagt, þ.e. hvar orka sem yrði til í Blönduvirkjun yrði nýtt. Svarið hljóðaði á þá leið að innan við 10% væru nýtt á Norðurlandi vestra. Eins og staðan er þar er því verið að flytja geysilega mikla orku frá Norðurlandi vestra. Það er í rauninni mjög villandi og ómálefnalegur málflutningur sem verið er að fara fram með, m.a. í Skagafirðinum, að virkjun Jökulsár þar sé einhver forsenda fyrir iðnaðinn. Það er hægt að stinga í samband, eins og staðan er núna, iðjuveri sem væri mjög góður kostur eflaust í Skagafirðinum, að fá iðjuver líkt og steinullarverksmiðjuna. En þetta frumvarp sem hér um ræðir er alls ekki nein forsenda, það er langt í frá. Það er bara villandi málflutningur.

Ég vil halda áfram með þá umræðu hvað liggi á. Eru mál einhvers staðar strand í kerfinu? Ég hef hér sjóðheita skýrslu sem kom í þingið í dag, skýrslu um raforkumálefni sem gefin er út af hæstv. iðnaðarráðherra. Nú er ekki að sjá að við séum í flæðiskeri stödd hvað varðar raforku og útgáfu rannsóknarleyfa. Á bls. 62 í skýrslunni kemur fram að gefin hafa verið út leyfi til rannsókna á Hellisheiðarsvæði, vesturhluta Kröflusvæðis, við Þeistareyki og í Köldukvíslarbotnum, á Hágöngusvæði. Þá hefur Hitaveita Suðurnesja fengið nýtingarleyfi og hafið undirbúning fyrir allt að 100 megavatta virkjun á Reykjanesi. Síðan er haldið áfram. Gefin hafa verið út virkjanaleyfi fyrir Búðarhálsvirkjun, 120 megavött, Kárahnjúkavirkjun er í fullum gangi, Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun og Lagarfoss. Það er ekki að sjá að við séum eitthvað strand, og að þetta sé einmitt frumvarpið sem hæstv. iðnaðarráðherra situr heilan dag og jafnvel fram á kvöld yfir, ég get ekki séð það.

Það eru önnur mál sem brenna á, t.d. byggðamálin og útflutningsgreinarnar. Ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra leggur svona mikla áherslu á þetta. Hún kippir þessu frumvarpi fram fyrir mál sem allir eru sammála um. Það er umdeilt. Þó svo að efni frumvarpsins virðist vera sanngjarnt og er það eflaust, þ.e. að þeir sem leggja í rannsóknir fái að nýta orkuna, þá hefur ráðherrann glatað ákveðnu trausti. Ég verð að segja að traust mitt á hæstv. iðnaðarráðherra og störfum hennar hefur farið síminnkandi og sérstaklega í ljósi þess að öll loforð um að raforkan skyldi ekki hækka hafa ekki gengið eftir. Orkureikningarnir hafa hækkað og mér finnst að í umræðunni drepi hún málefnalegri umræðu oft á dreif í staðinn fyrir að taka á málefnum sem skipta máli.

Ég hefði talið það ábyrgan iðnaðarráðherra sem hefði forgöngu um að hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að standa með sér og leggja fram frumvörp samhliða nýtingarfrumvörpum. En það væri fróðlegt að einhver svör fengjust um hvers vegna engin frumvörp koma fram til að tryggja náttúruna. Ég er alls ekki á móti stóriðju en mér finnst mjög sérstakt að heil ríkisstjórn skuli eingöngu leggja áherslu á þann málaflokk og síðan þegar kemur að náttúruvernd, sem ég er mjög hlynntur, þá má ekki taka þau mál til umfjöllunar, helst ekki. Traust mitt hefur farið hríðminnkandi á störfum ráðherra og einnig í sambandi við byggðamálin. Það virðist ekkert vera að gerast þar.

Við höfum rætt um frumvarp til vatnalaga. Þar er mjög mikilvægt mál sem fjallar m.a. um rétt sveitarfélaga. Sveitarfélög í landinu þurfa jafnvel stundum að geta sótt vatn út fyrir landamörk sín. Mér finnst í umræðunni um þessi mál, bæði vatnsverndina og að sveitarfélög geta tryggt sér ákveðinn nýtingarrétt út fyrir sín mörk, að hæstv. iðnaðarráðherra og starfsmenn hennar séu á bremsunni við að sjá að þetta geti verið skynsamlegt, að tryggja að sveitarfélög hafi nýtingarrétt í forgrunni. Ég átta mig í rauninni ekki fyllilega á því hvað rekur hæstv. ráðherra hér áfram, sérstaklega í ljósi þess að önnur verkefni blasa við. Útflutningsiðnaðurinn glímir við hátt gengi og síðan vantar fjármagn til nýsköpunar.

Fleira forvitnilegt er í þessari skýrslu sem var að koma út sem sýnir að við erum alls ekki stopp í þessum málum eins og ég sagði áðan. Raforkumál og rannsóknir á orkugeiranum eru á fullri ferð. Þess vegna finnst mér vera heiðarlegast fyrir hæstv. ráðherra að svara þessu í rólegheitum hvað það er í rauninni sem kallar akkúrat á þetta. Eru einhver raforkufyrirtæki, sem eru að vísu öllsömul enn sem komið er í opinberri eigu, að merkja sér ákveðin landsvæði með því að tryggja sér rannsóknarleyfi? Mann fer að gruna að málið snúist að einhverju leyti um það að menn séu að merkja sér vissa á til að fá nýtingarleyfi í framtíðinni. En það er í rauninni ekkert sem kemur í veg fyrir að ákveðin fyrirtæki fái einfaldlega nýtingarleyfi strax og geti þá hafið rannsóknir á þeim forsendum eins og staðan er núna. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þessi forgangsröðun eins og staðan er í dag — það er nóg rafmagn í landinu og það er ekki eins og við séum á flæðiskeri stödd, eins og kom fram áðan í allri þeirri upptalningu í skýrslunni um raforkumálefni. Það er í rauninni óskiljanlegt hvað það er sem hvetur ráðherra til að ýta málinu fram með þessum asa án þess að binda þá hnúta sem eru lausir.