132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tæknifrjóvganir.

276. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða fyrirspurn frá mér og hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um tæknifrjóvganir.

Færsla glasafrjóvgunardeildar Landspítalans yfir í hinn sjálfstæða rekstur ART Medica hefur heppnast vel að mati flestra, þar á meðal samtakanna gegn ófrjósemi sem heita Tilvera. Aðstaðan og þjónustan hefur stórbatnað og biðlistar styst til muna. Við færslu á þjónustunni, fyrir um tíu mánuðum, var því lýst yfir að starfsemin yrði tryggð og að meðferðarkostnaður mundi ekki hækka. En frá því í ágúst síðastliðnum hefur hins vegar skapast óásættanleg staða þar sem fjölda umsamdra meðferða var náð í sumar og fólk lenti í því að greiða fyrir meðferð að fullu í rúma þrjá mánuði eða fresta meðferðinni um ókominn tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá Tilveru hafa nokkrir tugir einstaklinga lent í að borga fyrir meðferð, greiða fullu verði þjónustu sem áður var niðurgreidd. Sá kostnaður getur numið mjög háum upphæðum eða nokkrum hundruðum þúsunda króna. Enn hefur ekki verið komið til móts við það fólk um endurgreiðslu, eftir því sem ég best veit. Það er ljóst að þörfin fyrir slíkar meðferðir hefur vanmetin í samningi milli LSH og ART Medica. Þrátt fyrir að fjöldi niðurgreiddra meðferða hafi farið upp 330 meðferðir á árinu 1999 var einungis samið um 250 niðurgreiddar meðferðir milli LSH og ART Medica í samningi fyrir árið í ár.

Samtökin Tilvera meta að það svo að veita þurfi viðbótarfjármagn til sem nemur 105 meðferðum og miða þurfi við um það bil 330 meðferðir á ári til að mæta þörfinni. Sé það ekki gert myndast einfaldlega enn lengri biðlistar.

Samningurinn við ART Medica rann út 12. nóvember síðastliðinn. Hins vegar hefur verið gerður bráðabirgðasamningur til skamms tíma. Enn vantar langtímalausn. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hve margar niðurgreiddar meðferðir verði samið um í næsta samningi. Einnig spyr ég hvort hann muni koma til móts við þá sem ekki gátu notið niðurgreiðslu þjónustunnar á samningstímanum og greiddu fyrir meðferðina fullt verð eða frestuðu meðferðinni og hversu mörg pör þetta eru.

Í gær var kynnt afar ánægjulegt frumvarp sem heimilar m.a. tæknifrjóvganir samkynhneigðra. Því má ætla að eftirspurn eftir slíkum meðferðum muni aukast enn frekar á næstu árum. Það er ljóst að það þarf að gera ráð fyrir enn auknu fjármagni vegna þessa. Ég vil spyrja hvort hæstv. heilbrigðisráðherra muni taka tillit til fyrirhugaðra lagabreytinga í næstu samningsgerð.