132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Athugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

273. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra varðandi það hvernig stjórnvöld hafi brugðist við athugasemdum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í apríl 2005 þess efnis að:

a. skilgreining á hryðjuverkum í almennum hegningarlögum sé óljós og geti náð til lögmætra aðgerða í lýðræðisþjóðfélagi og stefnt þeim í hættu, þannig að skilgreininguna þurfi að endurskoða,

b. ákært sé í of fáum nauðgunarmálum miðað við fjölda kærðra mála og stjórnvöldum beri að tryggja að alvarleiki nauðgunarbrota sé viðurkenndur og látið reyna á fleiri mál fyrir dómi.

Þessi tilmæli koma frá þeirri nefnd sem annast eftirlit með alþjóðlegum samningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og eru á svipuðum nótum að sumu leyti og önnur tilmæli sem við fengum fyrir meira en ári frá svipaðri nefnd sem annast umsjón með alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrir í fyrirspurn á þingi þann 3. nóvember 2004. Þar voru einmitt gerðar athugasemdir líka um ofbeldismál. Þá var það fyrst og fremst heimilisofbeldi. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú sett þær athugasemdir í ákveðinn farveg og við höfum frétt af því að í bígerð muni vera að koma með frumvarp varðandi almenn hegningarlög um að bætt verði við sérstakri refsiþyngingarástæðu þar sem náin tengsl geranda og brotaþola í ofbeldismálum þyki hafa gert árásina grófari.

Varðandi þau atriði sem hér er fjallað um er í fyrsta lagi verið að fjalla um ákvæðið sem við köllum hreinlega hryðjuverkaákvæðið, þ.e. hvaða tæki stjórnvöld geti haft í höndum til að reyna að koma í veg fyrir hryðjuverk eða hafa uppi á hryðjuverkamönnum í samfélaginu. Í því sambandi er fólki bannað að hylja andlit sitt í mótmælaaðgerðum og þar fram eftir götunum. Það var rætt í þessum sal á þeim tíma þegar þau ákvæði fóru í gegn að þetta gæti einmitt komið í veg fyrir fullkomlega lögmæt mótmæli ef t.d. leikrænum tilburðum væri beitt í þágu mótmælaaðgerða þar sem fólk væri í búningum og mundi hylja andlit sín. Þá væri þarna mjög grátt svæði. Ljóst er að nefndin sem sér um að framfylgja þessum samningi og athuga hvernig aðildarríkin gera það hefur ákveðnar athugasemdir. Sömuleiðis þætti mér vænt um að heyra hæstv. ráðherra segja frá því hvernig sú vinna stendur í ráðuneytinu (Forseti hringir.) að sjá til þess að fleiri nauðgunarkærur nái (Forseti hringir.) fram að ganga og endi með dómi.