132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:45]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég veit ekki almennilega hvaðan á mig stendur veðrið. Stjórnarandstaðan er stöðugt að tala um ráðherraræði og að ríkisstjórnin stjórni öllu o.s.frv. og hér ætlum við að ræða nefndarálit hv. fjárlaganefndar. Það er búið að ræða málið í 1. umr., það er búið að vísa því til nefndar og við erum að fara að ræða álit nefndarinnar. Nefndin er búin að spyrja ráðuneytin, hún er búin að spyrja alla aðila sem máli skipta — mér skilst að hún vinni ansi mikið allt haustið, á hverjum einasta degi nánast — og hún er búin að spyrja um þetta og er komin með álit, bæði meiri hluti og minni hluti o.s.frv., og við erum að ræða það álit. Þetta er mál þingsins. Ég vil ekki að menn geri svona lítið úr þinginu að heimta að ráðherrar sitji hérna við. Auðvitað er gott að hafa þá hérna og fjármálaráðherra mun geta svarað öllu en við eigum fyrst og fremst að ræða álit nefndarinnar.