132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:29]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir sköruglega ræðu hans.

Ég er með eina fyrirspurn til hv. þingmanns og hún varðar símenntunar- og fræðslumiðstöðvar sem samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hafa tiltekna upphæð, 9,9 millj. kr. Þessar miðstöðvar hafa gert frábært starf og unnið mjög nauðsynlegt starf í þjóðfélagi okkar. Ég vil spyrja hann hvernig fjárlagafrumvarpið jafni þann aðstöðumun sem er á milli símenntunarmiðstöðva í landinu. Verulegur munur er á fjárframlögum til þessara miðstöðva sem eru að vinna mjög gott starf. Þess vegna langar mig að vita hvar birtist það sem við vildum gjarnan fá að sjá hér, þ.e. sú jöfnun sem þarf að vera á milli þeirra?