132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:03]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fyrir ári, eða 3. desember, að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddum aðeins um gengismálin og stefnu Seðlabankans. Ég gagnrýndi þá mjög harkalega þá hundrað punkta hækkun sem varð hjá Seðlabankanum, sem hafði verið tilkynnt daginn áður, og taldi að þessi viðleitni bankans væri vonlaus frá upphafi. Þeir gætu ekki staðið að þessu, þeir mættu ekki gera þetta, það hefði engin önnur áhrif en þau að framleiðslan í landinu kæmist á kaldan klakann.

Ég man ekki betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi hneykslast mjög á mér þá. Að vera með þennan dónaskap að gagnrýna svona fína menn eins og þá sem eru í Seðlabankanum. Hann taldi það alveg óviðeigandi. Nú heldur hann hér langa ræðu og lýsir stöðu framleiðslunnar og ég gat ekki betur heyrt en hann væri að lýsa nákvæmlega því sem ég hafði spáð hér fyrir ári síðan. Nú leikur mér forvitni á að vita: Hvaða skoðun hefur hann á málinu? Hver telur hann að sé hin rétta efnahagsstjórn? Hann hneykslast á mér fyrir að segja að laun séu of há á Íslandi. Laun á Íslandi eru 70% af þáttatekjunum. Hvergi í OECD eru laun jafnhá. Næsta land fyrir neðan okkur er Svíþjóð með 64%. Hvað er það annað en launin sem við getum hreyft? Hvaða óhreinskilni er það að geta ekki komið hér fram og rætt efnahagsmálin á hlutlægan hátt án þess að segja það beint við þjóðina að hennar bíði að kaupmátturinn í erlendum varningi muni falla? Það ber að segja það og á að segja það, það er enginn möguleiki á að komast undan því.