132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:59]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú fjárlögin í 2. umr. Búið að ræða þau frá því kl. 11 í morgun og er ég aðeins fjórði stjórnarliðinn sem kemst að í þeirri umræðu, þannig að sumir hafa haldið hér langar ræður í dag. Hagvöxtur hefur verið hér meiri en annars staðar miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við og kaupmáttur almennings hefur aukist ár frá ári. Atvinnuleysi er í algeru lágmarki og sem betur fer ríkir friður og sátt á vinnumarkaðnum og er það ekki síst vegna þess að nú hefur ríkisstjórnin komið vel að vinnumarkaðinum og hefur tryggt þann frið með myndarlegum hætti. Spá um þjóðhagsforsendur er óbreytt og það er reiknað með að hagvöxtur verði 4,6% á árinu 2006 og verðbólgan 3,8%. Það er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 2,7%. Því er spáð að á næsta ári muni gengi krónunnar lækka og að landsframleiðslan muni aukast um 4,6% að magni til. Það er einnig reiknað með því að atvinnuleysi minnki milli ára úr 2,2% niður í 1,8%.

Virðulegi forseti. Ýmsar breytingartillögur liggja hér frammi frá meiri hluta fjárlaganefndar og mun ég fara aðeins yfir þær. Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra erinda sem hafa komið til hennar og breytingartillögur sem nú eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 1.859,3 millj. kr. til hækkunar á fjárlögum. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur verði um 334,6 milljarðar kr. sem eru 7,2 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður um 19,6 milljarðar sem er hækkun upp á 5,4 milljarða kr. Mest hækka útgjöld menntamálaráðuneytisins, eða um 690,2 millj. kr., og síðan heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis um 155,4 milljónir.

Ég mun nú geta geta aðeins um nokkur verkefni, m.a. verkefni sem vistað er hjá forsætisráðuneytinu, það er Jafnréttissjóður. Það er verið að leggja til 10 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um Jafnréttissjóð. Á fundi ríkisstjórnarinnar 21. október síðastliðinn var að tillögu forsætisráðherra samþykkt að verja 10 millj. kr. til að stofna sérstakan rannsóknasjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita úr til rannsókna á grundvelli umsókna. Markmiðið með stofnun sjóðsins er að tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar kynjarannsóknir sem geti stuðlað að framgangi aukins jafnréttis og jafnri stöðu kynjanna. Fyrst um sinn verður lögð sérstök áhersla á annars vegar að veita fé til rannsókna á stöðu kvenna á vinnumarkaði, bæði að því er varðar launakjör og áhrif og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar hér á landi, svo sem lög um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Ég held að þetta sé afskaplega mikilvægt og á örugglega eftir að skila sér inn í jafnréttisbaráttuna.

Þá eru í breytingartillögunum lagðar til 100 millj. kr. sem er hluti af ríkisstjórnarsamþykktinni við aðila vinnumarkaðarins um 100 millj. kr. til sérstaks átaks á árinu 2006, til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra einstaklinga með litla menntun, jafnframt því að bæta stöðu erlends vinnuafls í íslensku samfélagi. Tillagan er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Það er miðað við að menntamálaráðuneytið geri samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um eftirfarandi fjögur verkefni:

Í fyrsta lagi að útbúa námsefni og þjálfa leiðbeinendur í íslenskukennslu fyrir útlendinga.

Í öðru lagi að greiða fyrir námskeiðahald og endurmenntun einstaklinga á vinnumarkaði sem leggja stund á nám sem byggist á námskrám sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur vottað og menntamálaráðuneytið staðfest.

Í þriðja lagi að halda áfram með verkefni um mat á raunfærni einstaklinga á vinnumarkaði.

Í fjórða og síðasta lagi að efla náms- og starfsráðgjöf fyrir ófaglærða og þá sem litla menntun hafa á vegum símenntunarmiðstöðva.

Því er nú þannig háttað að við höfum níu símenntunarmiðstöðvar á landinu fyrir utan Fræðslusjóð atvinnulífsins og símenntunar. Samtals fyrir þessa liði eru þetta 291,4 millj. kr., sem eru eins og ég gat um áðan 100 millj. kr. viðbót við það sem var fyrir í frumvarpinu. Þetta er afskaplega mikilvægt verkefni því símenntunarstöðvarnar hafa rækilega sannað sig. Fleiri og fleiri hafa fengið tækifæri til að afla sér náms og mennta í fjarnámi og með ýmiss konar námskeiðum sem boðið er upp á í þessum miðstöðvum, sem eru eins og ég sagði áðan, níu á öllu landinu. Ein í hverju hinna gömlu kjördæma nema tvær á Suðurlandi, þar af önnur í Vestmannaeyjum. Allar hafa þessar símenntunarmiðstöðvar svo sannarlega sannað sig og þetta skiptir miklu máli.

Virðulegi forseti. Við umfjöllun fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga hafa nefndinni borist nú eins og á mörgum undanförnum árum, fjölmörg erindi um fjárframlög til ýmissa verkefna á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana. Það er ljóst að því miður er ekki mögulegt að verða við nema að hluta þeirra erinda. Það kemur því í hlut fjárlaganefndar að forgangsraða, velja og hafna. Við slíkar aðstæður verður ekkert hafið yfir gagnrýni. Um allt land er unnið að mörgum mjög athyglisverðum verkefnum sem vert er að styðja við. Við afgreiðslu erinda að þessu sinni hefur sérstaklega verið tekið tillit til ákveðinna þátta og má þar nefna framlög til rannsóknarverkefna vítt og breitt um landið. Það eru störf sem eru sérstaklega ætluð háskólamenntuðu fólki en margir hafa gagnrýnt að það vanti störf fyrir háskólamenntað fólk út á landsbyggðina. Við þessu er fjárlaganefnd að bregðast með því að leggja aukið fé til rannsóknarverkefna.

Eins og undanfarin ár höfum við lagt mikla áherslu á endurbyggingu og varðveislu gamalla húsa og uppbyggingu safna. Slík verkefni falla vel að menningartengdri ferðaþjónustu en á hana hefur verið lögð mikil áhersla á undanförnum árum. Sá mikli uppgangur sem verið hefur á landinu öllu hefur komið ferðaþjónustunni mjög til góða. Við verðum að leggja okkur fram um að varðveita menningararfinn sem er okkur afskaplega mikilvægur. Við höfum því miður glatað of miklu af menningarverðmætum okkar og slíkt má ekki henda framvegis. Þessar fjárveitingar hafa orðið hvatning og lyftistöng fyrir félög, byggðir og sveitarfélög um allt land og hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með hvernig verkefni hafa dafnað og blómstrað í gegnum árin. Þetta kemur einnig fram í fjölmörgum heimsóknum til nefndarinnar nú í haust sem önnur haust, og ég tala nú ekki um þegar fjárlaganefnd fer um byggðir landsins, þá eru þetta verkefni sem standa svo sannarlega upp úr.

Hvað varðar Þjóðminjasafn Íslands þá gerum við tillögu um að bæta við 15 millj. kr. hækkun á framlagi til húsasafns Þjóðminjasafns Íslands. Það eru endurbætur húsa í vörslu safnsins og þar má t.d. nefna torfbæina. Við verðum að taka okkur taki varðandi torfbæina. Þetta eru okkar menningarverðmæti. Þjóðin bjó og lifði í þessum bæjum og það er skylda okkar að sýna sögunni og menningarverðmætum okkar tilhlýðilega virðingu. Má geta þess að torfbæirnir gætu hugsanlega komist á heimsminjaskrá UNESCO. En það gerist aðeins ef vel verður að þessu hugað.

Húsafriðunarsjóður. Það er gerð tillaga um 126 millj. kr. tímabundna hækkun á liðnum til ýmissa verkefna. Sá liður verður þá samtals 202,4 millj. kr. Þetta er um 50 verkefni. Það hefur verið mikil og góð samstaða með Húsafriðunarsjóði varðandi úthlutun til endurbygginga gamalla húsa og hefur framkvæmdastjóri Húsafriðunarsjóðs, Magnús Skúlason, lagt mat sitt á umsóknirnar og verið fjárlaganefnd innan handar og leiðbeint henni í þessum efnum. Ég tel að það skipti afskaplega miklu máli.

Ég ætla aðeins að geta nokkurra verkefna sem fjárlaganefnd leggur til að verði lagðir fjármunir til. Það er vélsmiðjan á Þingeyri, gamli spítali, Gudmanns Minde, á Akureyri. Syðstabæjarhúsið í Hrísey. Maðdömuhúsið á Siglufirði, gosminjar í Vestmannaeyjum, verkefni sem er kallað Pompei norðursins, þar sem verið er að grafa hús undan hrauninu í Vestmannaeyjum. Þetta verkefni er afskaplega merkilegt og mun verða notað sem tilraunaverkefni til að sjá hvernig húsin koma undan hrauninu. Þá er hér gamall kunningi, það er Duus-húsið í Reykjanesbæ sem er menningarhús þeirra Reyknesinga og er afskaplega merkilegt hús. Í tillögunni er lagt til að þessi verkefni fái 5 millj. kr. hvert. Síðan eru fjölmörg önnur verkefni, eins og Þingeyrarkirkja í Dýrafirði, Friðbjarnarhús á Akureyri, gamla salthúsið á Þingeyri, Vatneyrarbúð á Patreksfirði, Faktorshúsið á Djúpavogi og gamla Faktorshúsið á Ísafirði. Verslunarhús í Englendingavík í Borgarnesi, steinhlaðið íbúðarhús á Héðinshöfða á Tjörnesi, Tryggvaskáli á Selfossi sem er mjög merkilegt verkefni sem hefur staðið í mörg ár. Hótel Framtíð á Djúpavogi, gamli barnaskólinn á Ísafirði, gamla mjólkursamlagshúsið í Borgarnesi, Kaldrananeskirkja á Ströndum, stúkuhúsið á Akranesi, Kálfatjarnarkirkja á Vatnsleysuströnd, Brydebúð í Vík, verslunin bræðurnir Eyjólfsson og Ingjaldshólskirkja á Snæfellsnesi. Síðan eru nokkrar gamlar réttir sem við leggjum til að fái fjárframlag. Þar má nefna Hraunsrétt í Aðaldal og Skaftholtsréttir. Eins eru hér tveir hákarlahjallar, annar í landi Asparvíkur á Bölum í Strandasýslu og hinn, ásamt skemmu, á Reyðarhlein á Dröngum. Síðan er það Kaupvangur á Vopnafirði, minningarkapella séra Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri, og svona mætti lengi telja og lægsta upphæðin er lögð til í gamla þinghússins í Hraungerðishreppi í Þingborg. Síðan eru það söfnin. Það eru 27 söfn á landinu sem fá öll einhverja úrlausn og það er upp á samtals 90 millj. og 500 þús.

Kvikmyndasjóður. Það er lagt til að Kvikmyndasjóður fái 65 millj. kr. hækkun framlags til að styrkja vegna kvikmyndagerðar. Og síðan er lagt til að 18 millj. kr. fari til menntunar á sviði kvikmyndagerðar sem er mikilvægur áfangi í að koma fótum undir kvikmyndaskóla Íslands. Þá er aðeins gerð úrlausn fyrir starfsemi áhugaleikfélaga og atvinnuleikhópa þar sem gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Leikfélags Reykjavíkur vegna verkefna á vegum áhugaleikhópa.

Tónlist fyrir alla. Það er lagt til að bætt verði þar við 2 millj. kr. hækkun á framlagi. Það verða þá 7 millj. til alls. Þetta verkefni er eitt af því skemmtilegasta og merkilegasta verkefni sem ég þekki. Þetta eru okkar fremstu tónlistarmenn sem fara um landið og kynna skólabörnum tónlist. Þetta hefur orðið til að mörg ungmenni hafa fengið áhuga á að læra meira í tónlist. Þetta skiptir miklu máli.

Síðan eru samningar um menningarmál á Vesturlandi og svo koma hér ýmis fræðistörf og ég vil geta um nokkur. Það eru nokkur fræða- og þekkingarsetur. Það er lagt til 31,1 millj. kr. framlag til Þekkingarseturs á Vestfjörðum. Og 8 millj. kr. framlag til að stofna fræðasetur í Stykkishólmi. 7 millj. kr. framlag til Háskólasetursins á Hornafirði og 5 millj. kr. framlag til Þekkingarseturs á Vestfjörðum til reksturs Fornleifaskóla Vestfjarða í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og 5 millj. kr. framlag til Þekkingarseturs Þingeyinga.

Þá er gerð tillaga um hækkun á rekstrarframlagi til Skriðuklausturs og einnig gerð tillaga um 2 millj. kr. tímabundið framlag til fornleifarannsókna á Skriðuklaustri. En eins og flestir vita fara þar fram afskaplega merkilegar fornleifarannsóknir. Þá er einnig gerð tillaga um að Snorrastofa fái 5 millj. kr. hækkun á rekstrarframlagi.

Æskulýðsmál hafa verið sá málaflokkur sem fjárlaganefnd hefur alltaf lagt vel til. Gerð er tillaga um að Ungmennafélag Íslands fái 20 millj. kr. hækkun á framlagi og lagt er til að Dalabyggð ásamt UMFÍ verði veitt 10 millj. kr. framlag til ungmenna- og tómstundabúða á Laugum í Sælingsdal. Er óskandi að þetta verkefni og það verkefni sem UMFÍ hefur áhuga á að koma upp í Skógaskóla, hinum gamla, verði að veruleika í kjölfarið á þessu.

Þá er einnig lagt til að Bandalag íslenskra skáta fái aukin framlög og áfram verður haldið með afskaplega merkilegt verkefni, sparkvelli. Tillaga er um að veita Knattspyrnusambandi Íslands 25 millj. kr. tímabundið framlag til að halda áfram sparkvallaátaki. Þetta verkefni er samstarfsverkefni Alþingis, Knattspyrnusambands Íslands og erlendra aðila. Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá það sem þessir vellir hafa komið upp, hvað þeir eru mikið notaðir, bæði af stelpum og strákum.

Ég vil aðeins geta um landbúnaðarráðuneytið. Gert er ráð fyrir því að Veiðimálastofnun verði veitt 12 millj. kr. tímabundið framlag til rannsókna á sjávardvöl laxins. Það er mjög mikilvægt verkefni og er nauðsynlegt að það haldi áfram. Lagt er til að Guðbrandsstofnun við Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal verði veitt 5 millj. kr. tímabundið framlag til verkefnisins 900 ára afmæli Hólastaðar – biskupsseturs og skóla.

Síðan er gerð tillaga um að Landgræðsla ríkisins fái 7 millj. kr. tímabundið framlag vegna Hekluskóga og Skógrækt ríkisins einnig 7 millj. kr. tímabundið framlag vegna Hekluskóga. Þetta er afskaplega stórt og mikið verkefni sem er í samstarfi þessara tveggja stofnana.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu er gert ráð fyrir fangelsisbyggingum. Það eru stofnframkvæmdir. Gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til framkvæmda við stækkun og endurbætur fangelsa. Unnið hefur verið að frumathugun á stöðu og horfum í fangelsismálum þar sem fram kemur þarfagreining, yfirlit yfir núverandi aðstöðu, rekstur og fleira. Fyrirhugað er í fyrsta áfanga að gera breytingar á fangelsum á Akureyri og Kvíabryggju. Á Kvíabryggju er ætlunin að fjölga um átta fangarými og er kostnaður við þær framkvæmdir áætlaður 27 millj. kr. Þær verða fjármagnaðar með ónotuðum fjárheimildum frá fyrri árum.

Á Akureyri er ætlunin að fjölga fangaklefum um tvo og skapa möguleika á langtímavistun fanga. Áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir eru 130 millj. kr. Auk þess er talið nauðsynlegt að gera breytingar á húsnæði lögreglustöðvarinnar og er kostnaður við það áætlaður 80 millj. kr. Fjárveitingin er ætluð til þess að unnt verði að hefjast handa við framkvæmdir á Akureyri seinni hluta næsta árs. Síðan er í undirbúningi stækkun og lagfæring á fangelsinu á Litla-Hrauni sem eru líka orðnar tímabærar.

Hvað varðar ýmsa starfsemi hjá félagsmálaráðuneyti vil ég geta hér um nokkur verkefni. Fyrst nefni ég Geysi, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Þar er gerð tillaga um 3 millj. kr. framlag til klúbbsins Geysis sem vinnur uppbyggingarstarf með einstaklingum sem hafa átt við geðræn vandamál að stríða. Það hækkar um 3 millj. kr. og verður þá 21,5 millj. kr. Lagt er til að Félag heyrnarlausra fái 4 millj. kr. tímabundið framlag og verður framlag til þeirra þá 9,2 millj. kr.

Síðan er nýtt verkefni, Strókur, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. framlag til klúbbsins Stróks sem er klúbbur fyrir fólk með geðraskanir á Suðurlandi. Sá klúbbur er staðsettur á Selfossi en starfssvæðið er allt Suðurland.

Þá er gerð tillaga um að Stígamót fái 4 millj. kr. hækkun og verður þá framlagið til þeirra 25,3 millj. kr. ef þetta verður að lögum. Undir liðnum Nýbúamiðstöð Vestfjarða er gerð tillaga um 5 millj. kr. hækkun á framlagi til Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum og verður þá framlagið til þeirra 16,3 millj. kr.

Varðandi málefni fatlaðra eru styrkir til ýmissa framkvæmda. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. tímabundið framlag til Bergmáls, líknar- og vinafélags, til að byggja hús undir starfsemi félagsins að Sólheimum í Grímsnesi.

Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili, fær 5 millj. kr. hækkun á framlagi samkvæmt frumvarpinu og verður þá framlagið 48,7 millj. kr.

Markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu hjá samgönguráðuneytinu. Þar er lagt til að 20 millj. kr. tímabundið framlag sem var á fjárlögum 2004 í tvö ár til uppbyggingar og þróunar ferðaþjónustu á landsbyggðinni verði framlengt um eitt ár. Það er afskaplega mikilvægt að þetta verkefni verði framlengt.

Síðan er hækkun á safnlið sem fer til ferðamálasamtaka á nokkrum stöðum á landinu.

Loks er hjá samgönguráðuneytinu 15 millj. kr. fjárheimild til flutnings verkefna út á land.

Þá ætla ég að geta um jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku. Lagt er til að 25 millj. kr. viðbótarheimild verði veitt á þann lið. Áætlað er að um 20% þeirra sem nota rafhitun noti meira en 35 þús. kílóvattstundir á ári sem er núverandi hámark á niðurgreiðslu ríkissjóðs. Lagt er til að hámarkið hækki í 40 þús. kílóvattstundir á ári. Kostnaðarauki ríkissjóðs við að hækka viðmiðunarmörkin upp í 40 þús. kílóvattstundir á ári er áætlaður 40 millj. kr. á ári en mismunurinn, 15 millj. kr., rúmast innan útgjaldaramma ráðuneytisins.

Þá kemur að umhverfisráðuneytinu og ég vil aðeins geta um það að lokum. Þar fær Náttúrufræðistofnun Íslands tímabundið framlag upp á 8 millj. kr. til að gera náttúrufarskort af landinu.

Síðan eru náttúrustofurnar sem eru nokkrar. Um er að ræða framlög til rannsóknarverkefna og ég ætla aðeins að fara yfir þau. Náttúrustofa Neskaupstað: Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Austurlands til að sinna rannsóknum og vöktun hreindýrastofnsins. Náttúrustofa Vestmannaeyjum: Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Suðurlands til rannsókna á breytingum á fæðu lunda og áhrifum þeirra á varpárangur og rannsókn á búsvæðavali og afkomu óðinshana og þórshana á Suðurlandi. Náttúrustofa Bolungarvík: Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Vestfjarða til rannsókna í Hornstrandafriðlandi. Náttúrustofa Stykkishólmi: Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Vesturlands til áframhaldandi rannsókna á minkum. Náttúrustofa Sauðárkróki: Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Norðurlands vestra til eftirfarandi fimm verkefna: 2 millj. kr. til áframhaldandi jarðfræðilegrar úttektar á náttúrufari Skagafjarðar, 1 millj. kr. til jarðfræðilegrar úttektar á berghlaupum á Norðurlandi vestra, 1 millj. kr. til áframhaldandi rannsókna á Orravatnsrústum á Hofsafrétti, 0,5 millj. kr. til könnunar á útbreiðslu öskulaga á Norðurlandi vestra og loks 0,5 millj. kr. til áframhaldandi rannsókna á Sléttafellshverum við Síká. Náttúrustofa Sandgerði: Lagt er til 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Reykjaness til rannsókna á leiðum til fækkunar á mávi á Miðnesheiði með tímabundinni svæðafriðun á ref. Náttúrustofa Húsavík: Lagt er til 5 millj. kr. tímabundið framlag til Náttúrustofu Norðausturlands til rannsókna á lífríki vatna fyrir botni Öxarfjarðar og Skjálfanda.

Hjá öllum þessum náttúrustofum hafa verið í gangi afskaplega metnaðarfull verkefni, verkefni sem skiptir miklu máli fyrir þessar fámennu byggðir að geta sinnt. Þarna eru störf fyrir háskólamenntað fólk og með þessu 5 millj. kr. viðbótarframlagi fær hver náttúrustofa 13,4 millj. kr. á fjárlögum.

Virðulegur forseti. Ég hef ég farið yfir nokkur af þessum verkefnum og læt hér staðar numið.