132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur og hálfu ári var veitt fé til undirbúnings nýbyggingar fyrir barna- og unglingageðdeildina. Þá kom ósk um það frá Landspítalanum að skoða möguleika á því að leigja húsnæði fyrir göngudeild. Við gáfum grænt ljós á það hjá heilbrigðisráðuneytinu að leigja húsnæði sem við höfðum augastað á í Ármúla. Starfsfólk deildarinnar óskaði eftir því að fara aðra leið og við féllumst á að undirbúa nýbyggingu við Dalbraut sem felur í sér að þar verði komið upp göngudeild sem er áríðandi fyrir þessa starfsemi. Þar hefur verið undirbúin bygging sem kostar 600 milljónir sem ætlunin er að byggja í fjórum áföngum. Fyrsti áfanginn kostar um 278 milljónir. Í þá framkvæmd eru til núna um 180 milljónir, á annað hundrað milljónir eru framlag frá ríkinu sem dregið hefur verið saman til þessa verks og svo söfnunarfé sem lofað hefur verið upp á 50 milljónir frá þeim ágætu konum í Kvenfélaginu Hringnum.

Það er skemmst frá því að segja að ég hef rætt þetta mál ítrekað við yfirmenn Landspítalans. Þeir leggja áherslu á að byggt sé við Dalbraut því að þetta sé aftast í röðinni í áformum um byggingu á Landspítalalóðinni. Við höfum því fallist á það og ég tel að hægt sé að ráðast í verkefnið og byrja á því í upphafi næsta árs og raunhæft sé að ætla að því verði lokið á einu ári (Forseti hringir.) þannig að við gætum lokið því á árinu 2007.