132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:08]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði til að víkja að einu atriði sem fram kom í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og varðaði málaflokk menntamála. Hann sagði í ræðu sinni að erfitt væri að greina stefnu hæstv. menntamálaráðherra og raunar ríkisstjórnarinnar í menntamálum (Gripið fram í: Einkavæðingar…) og vék að því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft með þann málaflokk að gera á síðustu árum og líklega áratugum.

Ég get sagt hv. þingmanni að stefna ríkisstjórnarinnar, hæstv. núverandi menntamálaráðherra og Sjálfstæðisflokksins hefur verið alveg skýr og afraksturinn einkar glæsilegur. Almennt má um það segja, og það veit hv. þingmaður, að t.d. þegar foreldrar mínir voru ungir, og þeir eru litlu eldri en hv. þingmaður, þótti bara sjálfsagt að taka landspróf og láta þar við sitja. Ég veit að þegar hv. þingmaður braust til náms og fór í háskóla þótti það ekkert sjálfsagt mál. Í dag er menntakerfið allt annað. Við erum ekki með einn háskóla heldur átta eða níu, við erum með þúsundir háskólastúdenta þannig að menntakerfið hefur vaxið og dafnað í tíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu. Við erum með gjörbreytt menntakerfi í dag og það er hinn glæsilegi afrakstur sem sjá má af menntastefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er erfitt að halda því fram í þessu sambandi og með þennan vitnisburð að leiðarljósi að erfitt sé að greina stefnu í þessum málaflokki.

Hv. þingmaður vék einnig að því að það vantaði peninga inn í menntakerfið. Ég vil í því sambandi benda hv. þingmanni á að nú er komin ný skýrsla frá OECD sem sýnir að ekkert land í heiminum ver hærra hlutfalli af landsframleiðslu sinni til menntamála en Ísland. Ég vil biðja hv. þingmann um að taka það til greina (Forseti hringir.) þegar hann kemur upp í andsvar.