132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:25]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að staða ríkissjóðs Íslands er sterkari nú en dæmi eru um á síðari tímum. Miðað við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar verða fjárlög ársins 2006 með tekjuafgangi sem nemur 19,6 milljörðum kr. eða nálægt 2% af landsframleiðslu. Það er meiri afgangur en flestar Evrópuþjóðir geta státað af um þessar mundir. Útlit er fyrir að skuldir ríkissjóðs verði aðeins sem nemur um 10% af landsframleiðslu í lok næsta árs. Að þessu leyti hefur náðst ótrúlegur árangur á stuttum tíma við að greiða niður skuldir ríkissjóðs og er enn eitt dæmi um góðan árangur á stjórn ríkisfjármála síðustu árin. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa náð miklum árangri í ríkisfjármálum og það skiptir þjóðina miklu máli að áframhald verði á því eins og frumvarpið gengur út á.

Stjórnarandstaðan heldur því fram enn og aftur að verið sé að skera niður útgjöld til velferðarmála og félagsmála. Sá málflutningur er holari nú en nokkru sinni og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Þvert á móti er enn eitt árið verið að auka framlög til velferðarmála, til félagsmála og menntamála svo dæmi séu tekin. Það er rétt að vara þjóðina við því að taka mark á klisjukenndum og ósönnum málflutningi stjórnarandstöðunnar að þessu leyti heldur horfa til þess sem gert hefur verið og til þess sem felst í fjárlagafrumvarpinu. Allt miðar það að því að bæta hag og lífsgæði þjóðarinnar. Þar erum við í fremstu röð meðal þjóða heimsins og þar ætlum við að vera áfram.