132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:44]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um tillögu sem lýtur að því að auka fé til jöfnunar á námskostnaði um 130 millj. kr. Á því er mikil þörf. Besta dæmið um nauðsyn þess að greiða fólki úti á landi enn frekar götuna til aukinna mennta eru nýlegar tölur í svari við fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, um hlutfall íbúa úti á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu sem eingöngu hafa lokið grunnskólaprófi. Þar kemur fram að á aldrinum 20–40 ára, hjá fólkinu sem stendur undir byggðunum, fólkinu sem á börnin og fólkinu sem er að byggja upp, eru 45% íbúanna einungis með grunnskólapróf eða minna. En á höfuðborgarsvæðinu er þessi tala 27%. Þarna skilur verulega á milli. Það er mikil þörf á að efla menntun á landsbyggðinni. Fyrsta skrefið í því og eitt af þeim stóru er að verja verulega auknu fé til jöfnunar á námskostnaði. Því er þessi tillaga flutt.