132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni ákaflega undarlegt ákvæði sem ég hef efasemdir um að stjórnskipulega standist að heimila með þessum hætti, að hreinu ríkisfyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum þar um sé á grundvelli heimildargreinar í fjárlagafrumvarpi heimilað að hlutafélagavæða starfsemi sína, þess vegna nánast alfarið. En hér segir:

„Að heimila Rafmagnsveitum ríkisins að stofna hlutafélag um öflun og sölu raforku í samstarfi við aðra aðila á raforkumarkaði og leggja félaginu til nauðsynlegar eignir.“

Hvað er eftir í raforkufyrirtækjum þegar Landsnet er komið og sér um flutningana annað en annars vegar öflun og hins vegar sala raforkunnar? Það er ekki mikið annað en nafnið. Er hér verið að reyna að læða í gegn heimild til að einkavæða Rafmagnsveitur ríkisins bakdyramegin (Gripið fram í: Nei) eða aftan frá? (Gripið fram í: Nei.) Ja, það skyldi ekki vera að hæstv. ráðherra þori ekki að koma beint framan að málinu.

Þessi málatilbúnaður er að engu hafandi. Það á ekki að láta hæstv. ráðherra hafa þessa heimild. Ég held að hæstv. ráðherra væri nær (Forseti hringir.) að reyna að taka á þeim vandamálum sem kerfisbreytingar í raforkumálum um síðustu áramót sköpuðu með stórhækkun raforkuverðs.