132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hugsanlegt er að ég vanmeti sjálfan mig. En það er líka hugsanlegt að hv. þingmaður ofmeti mig. Alla vega þá gerir hún því skóna að sú staðreynd að ég hef sterkar skoðanir á þessu máli sé líkleg til að tefja framgang þess.

Hún spyr hvort þetta sé samkomulagsmál eða ekki. Hv. þingmaður var kannski ekki komin í þingsalinn þegar ég spurði hæstv. félagsmálaráðherra um slíkt hið sama. Svar hans var að Alþýðusamband Íslands vildi, eins og ég skildi hæstv. ráðherra, gjarnan sjá einstaka hluti öðruvísi. Hitt verð ég að segja algjörlega skýrt, að ég starfa í þessum þingsölum eftir sannfæringu minni vegna þess að ég hlýði stjórnarskránni og hún segir mér að gera það. Enginn aðili úti í bæ getur fjarstýrt mér í þeim efnum. Ég tek hins vegar tillit til þess ef um það er að ræða eins í þessu tilviki að ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins hafi gert bindandi samkomulag. Ef það er svo að Alþýðusamband Íslands segir við mig og okkur á þinginu að þeir óski eftir því að þetta verði samþykkt með þessum hætti fyrir jól þá hlusta ég á það. En ég áskil mér samt minn rétt til að hafa mínar sterku skoðanir á þessu máli. Ég hef skoðað þetta mál lengi. Mér er annt um þetta mál og frumvarpið er stórt skref eins og ég sagði. En ég finn á því nokkra annmarka, einn alvarlegan, eða einn sem dregur úr því að við náum markmiði frumvarpsins. Það er hlutverk mitt sem þingmanns að benda á það sem betur mætti fara og líka hlutverk hv. þingmanns Sivjar Friðleifsdóttur.