132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:45]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur skemmt sér yfir þessum texta, en við þurfum nú að hafa í huga að þetta er nýyrðasmíð, eins og kom reyndar fram hjá henni, og um er að ræða þýðingar frá staðlaráði og þýðingardeild utanríkisráðuneytisins. Þegar um er að ræða nýyrði í íslensku máli getur vel verið að þetta komi spánskt fyrir sjónir við fyrstu sýn en engu að síður held ég að vandað hafi verið til verksins. Þarna er um hugtök að ræða sem eru kannski fyrst og fremst þekkt á enskri tungu og þeir sem starfa við þetta eflaust almennt séð færir á enska tungu og ef þeir skilja það betur á þann veg er ekkert nema gott um það að segja. En ég er ekkert að tala gegn því að það verði skoðað í hv. nefnd hvort þarna er hægt að bæta úr.

Hvað varðar hin Norðurlöndin þá eru hlutirnir, eins og hv. þingmaður sagði, með öðrum hætti í Danmörku. Þar er um sjálfseignarstofnun að ræða. Í Noregi hafa stjórnvöld skilið þessa starfsemi frá eins og við erum að gera hér. Í Svíþjóð eru hlutirnir ekki eins langt komnir hvað það varðar en eflaust þurfa þeir að ganga sama veg því að um er að ræða kröfur um algjört sjálfstæði hvað varðar þessa faggildingu.

Hins vegar, eins og ég sagði hér áðan, verður að sjálfsögðu að fylgjast með þróuninni og ef málin þróast í einhverja allt aðra átt en lagt er upp með í þessu frumvarpi hlýtur að gefast tækifæri til að bregðast við því.