132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:58]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór mikinn í að hæla sér af ráðdeildarsemi við opinberan rekstur. Í því skyni finnst mér rétt að vekja athygli hv. þingmanns á svari sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra á síðasta þingi um hvað hlutur hins opinbera af þjóðarframleiðslu hefur vaxið á síðustu árum.

Ég tel það ákveðið áhyggjuefni, sérstaklega núna þegar við erum í uppsveiflu, að hlutur hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, hefur farið vaxandi. Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það sé rétt að vera svo ánægður með stöðu mála einmitt nú í ljósi þessa.