132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

381. mál
[19:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp en vil þó láta koma fram það sem ég hef áður sagt í þinginu varðandi Fjármálaeftirlitið og reyndar Samkeppnisstofnun einnig.

Ég held að tími sé kominn til að velta upp þeirri spurningu hvort Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun ættu ekki að heyra beint undir þingið. Ég tel mig hafa orðið varan við það varðandi Samkeppnisstofnun að sum mál sem þangað hafa farið hafi fengið afar skrýtna afgreiðslu. Ég nefni mál fyrirtækja sem sent hafa þangað athugasemdir t.d. vegna viðskipta með aflamark, hvernig það blandast inn í verðmyndun sjávarfangs hér á landi, en búið er að senda nokkrum sinnum inn erindi út af því máli. Það er eins og þar sé einhver pólitísk hönd að verki sem alls ekki geti fallist á að þau mál fái afgreiðslu þar þó að þau séu ekki með neinu öðru móti en mörg önnur viðskiptamál hér á landi sem stofnunin hefur fjallað um.

Ég held að það yki trúverðugleika Fjármálaeftirlitsins og einnig Samkeppnisstofnunar ef þessar stofnanir heyrðu beint undir Alþingi og skiluðu skýrslum til þingsins og væru ekki undir neinu sérstöku ráðuneyti. Þetta væru eftirlitsstofnanir eins og þær eru auðvitað til að sjá um ákveðin verkefni í þjóðfélaginu en þær heyrðu ekki undir neitt sérstakt ráðuneyti.

Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að ég hef áður tjáð þessar skoðanir mínar í þinginu og vildi láta þess getið við umræðuna án þess að ég fari að tefja neitt fyrir framgangi þess máls sem hér er til umræðu.