132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[15:04]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Páll Hallgrímsson, fyrrverandi sýslumaður og alþingismaður, andaðist í fyrradag, 3. desember. Hann var níutíu og þriggja ára að aldri.

Páll Hallgrímsson var fæddur í Reykhúsum í Eyjafirði 6. febrúar 1912. Foreldrar hans voru hjónin Hallgrímur Kristinsson, forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, og María Jónsdóttir húsmóðir. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi 1931, nam síðan lögfræði við Háskóla Íslands og lauk prófi vorið 1936. Um eins árs skeið, 1936–1937, starfaði hann hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga við lögfræðistörf og endurskoðun, en hinn 1. janúar 1937 var hann skipaður sýslumaður í Árnessýslu. Hann tók við því embætti 1. október það ár, aðeins 25 ára að aldri, og gegndi því samfellt til ársins 1982, í hálfan fimmta áratug. Hann var jafnframt bæjarfógeti á Selfossi 1978–1982.

Í sumarkosningum til Alþingis 1942 var hann í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Árnessýslu og var kjörinn þingmaður. Sat hann á rúmlega fimm vikna aukaþingi í ágúst og fram í september árið 1942, en þingmennsku hans lauk við kosningar til Alþingis í október 1942.

Jafnframt sýslumannsembætti gegndi Páll Hallgrímsson ýmsum trúnaðarstörfum, bæði í héraði og á landsvísu. Hann var í stjórn Kaupfélags Árnesinga 1939–1968, formaður stjórnarinnar frá 1960, og endurskoðandi Sambands íslenskra samvinnufélaga 1951–1957. Stéttarbræður hans völdu hann til forustu í samtökum sínum, í stjórn Dómarafélagsins og Sýslumannafélagsins.

Langt er nú liðið frá því að Páll Hallgrímsson átti skamma setu á Alþingi, en hann gaf ekki kost á lengri setu hér. Hann kaus að helga starfskrafta sína sýslumannsstörfum í víðlendri sýslu og standa með sýslungum sínum að framkvæmdum innan sýslunnar. Hann studdi og hafði forustu um viðreisn Þorlákshafnar, rekstur og byggingu skólaseturs á Laugarvatni og sjúkrahúsmál Suðurlands á Selfossi, svo að fátt sé talið.

Páll Hallgrímsson var samvinnumaður. Hann var farsæll embættismaður, félagslyndur og naut trausts þeirra sem störfuðu með honum.

Ég bið hv. alþingismenn að minnast Páls Hallgrímssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]