132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[15:56]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka málshefjanda, hv. þm. Merði Árnasyni, fyrir að taka þetta mál hér upp áður en hæstv. umhverfisráðherra hverfur til Montreal því það er nauðsynlegt að átta sig á því hvað hæstv. ráðherrann ætlar að hafa í veganestinu og hvaða flögg hann ætlar þar að reisa. Það hefur komið fyrir í forustu Sjálfstæðisflokksins og forustu repúblikana í Bandaríkjunum og hægri manna í Ástralíu og á stöku öðrum stað að þar hafa heyrst raddir sem hafa vefengt þá hættu sem stafar af loftslagsbreytingunum. Þess vegna er ánægjulegt að heyra hæstv. umhverfisráðherra taka undir þær áhyggjur hér og staðfesta það almenna álit sem nú er orðið að þetta sé eitthvert mikilvægasta verkefni sem við eigum við að fást, eða eins og hv. málshefjandi sagði, stærsta verkefni stjórnmála í samtímanum.

En hæstv. umhverfisráðherra svaraði ekki lykilspurningunum. Hún svaraði því ekki hvaða kröfur Ísland vill gera um að dregið verði úr mengun eftir 2012. Hvaða kröfur viljum við gera eftir 2012? Í öðru lagi: Ætlar hæstv. umhverfisráðherra að bregðast við áskorun hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að pressa á Bandaríkin og George Bush um að fara inn í þetta ferli af fullri alvöru? Í þriðja lagi: Telur hæstv. umhverfisráðherra að það komi yfir höfuð til greina að við sækjum um frekari undanþágur og frekari mengunarheimildir fyrir stóriðju á Íslandi en nú er eða telur hæstv. umhverfisráðherra að það sé útilokað að það geti verið framlag okkar til umhverfismála í heiminum að sækja um enn frekari mengunarkvóta fyrir stóriðju í landinu?