132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:38]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri ágætlega og þakka umhyggju hv. þingmanns í minn garð að telja mig vera nokkuð heyrnarlausa gagnvart ábendingum hans. Það vill svo til að ágætir félagar okkar í hliðarherbergi hafa aðeins hærra en venja er. En ábendingar hv. þingmanns eru ágætar og ég hvet menntamálanefnd sérstaklega að fara yfir þessar spurningar og ábendingar hans.

Svo ég skýri út nákvæmlega hugsunina á bak við Íslenska málnefnd þá er verið að efla og skerpa hlutverk hennar. Verið er að uppfylla þær óskir sem ýmsir á hennar vegum hafa sett fram eins og t.d. að hún móti málstefnu, skrifi skýrslu um stöðu íslensku tungunnar o.s.frv.

Hins vegar er ljóst að af því að Íslenska málnefndin fellur undir þessa stofnun þá kemur hún ekki til með að hafa sérstaka fjárveitingu. Hún kemur ekki til með að hafa slíkt. Engu að síður er ekkert því til fyrirstöðu að málnefndin skipti með sér verkum eins og hún gerir í rauninni í dag, fundi reglulega. Það mun verða allt gert til þess að koma til móts við að þetta hlutverk verði skýrt og því sé hægt að framfylgja. Ég vona að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að það er ekki ætlunin að rýra mikilvægi Íslenskrar málnefndar á neinn hátt, miklu frekar hitt að skerpa það og skýra. Ég hef kosið að fara þessa leið m.a. með vísan til þess að búið er að fara mjög gaumgæfilega yfir þetta með forstöðumönnum þeirra sem hlut eiga að máli og þeirrar stofnunar sem við erum að ræða í dag.