132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Innflutningur dýra.

390. mál
[18:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um ákveðin atriði. Það er í fyrsta lagi: Hvers vegna er nauðsynlegt að tengja ákvörðun um að fella niður staðlað gjald því að loka stöðinni í Hrísey? Mér finnst það vera tvennt ólíkt. Maður hafði nú haldið að ekki veitti af því að reyna að halda atvinnutækifærum á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég veit ekki betur en að þar sé starfandi klúbbur eignafyrirtækja sem leiti eftir því að fá ný fyrirtæki á svæðið. Hefur hæstv. ráðherra rætt við þá um að yfirtaka þessa einangrunarstöð í Hrísey, reka hana áfram, auka jafnvel umsvifin og gera hana að öflugri rekstrareiningu?

Við það að veita einu fyrirtæki leyfi til þess að reka starfsemi af þessum toga, einangrunarstöð á suðvesturhorninu, erum við náttúrlega búin að koma þessu í fákeppnisstöðu. Það er þá bara einn einkavæddur aðili sem rekur þessa starfsemi.

Herra forseti. Ég vil sérstaklega inna hæstv. ráðherra eftir því hvers vegna þarf að tengja þetta saman og hefur hann rætt við dugnaðarmenn og fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu um að taka að sér reksturinn á stöðinni þannig að hann þurfi ekki að selja hana með þessum hætti?