132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að halda því fram úr þessum ræðustóli að fjárlaganefnd hafi ekki sett sig nægilega vel inn í þau mál sem um er að ræða. Mér þykir það lýsa mikilli vankunnáttu hv. þingmanna sem stóðu að tillögunni við 2. umr. hvernig að henni var staðið, hvernig breytingartillagan var orðuð — gert var ráð fyrir að Leikfélag Reykjavíkur styddi við bakið á áhugaleikhópum fyrir þessar 10 millj. kr. en starfsemi Leikfélags Reykjavíkur byggist ekki á því að starfa með áhugaleikhópum. Hér var um flaustur og fljótfærni að ræða og mér finnst ósanngjarnt að leikhóparnir gjaldi fyrir það. Þeir gerðu ráð fyrir að þeir fengju þessa 10 millj. hækkun, sem er eitthvað sambærilegt við það sem hóparnir óskuðu eftir, en hún er tekin til baka af því að um mistök hafi verið að ræða. Það sýnir að enginn skilningur er til staðar hjá hv. þingmönnum á þeim málum sem hér liggja að baki, á þeirri starfsemi og þeim fjármunum sem hér um ræðir.