132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:44]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki skal standa á mér að fallast á að hér hafi verið aukin framlög til háskólastigsins. Ég vil eiga sanngjarna orðræðu við hæstv. menntamálaráðherra um málefni háskólastigsins. Svo mikilvæg eru þau. En ástæðan er auðvitað sú fyrst og síðast að nemendum á háskólaaldri hefur fjölgað mikið hér á landi á síðustu árum ólíkt því sem er í öðrum OECD-ríkjum sem eru eldri þjóðir en Íslendingar. Og vegna þess að við erum ung þjóð þurfum við að gera miklu betur en að vera meðaltalsþjóð í OECD en staðreyndin er sú að við gerum umtalsvert verr en meðaltalið í OECD. Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í sumar segir að við séum nærfellt 3 milljörðum undir þeim framlögum sem við þyrftum að vera til að ná meðaltalinu og þurfum við þó að gera betur vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar.

Hæstv. menntamálaráðherra kemur svo hér og virðist lifa í einhverju allt öðru landi en ég, þar sem framlögin aukast og aukast og allt er í blóma og þó stöndum við í hinni hendinni með nokkurra vikna gamla skýrslu sem ber saman á alþjóðlegum vettvangi níu háskóla og Háskóli Íslands, flaggskip háskólamenntunar í landinu, rétt skreiðist upp fyrir háskóla í Króatíu í framlögum á nemanda og nær hvergi hinum sjö. Það er ástæða til að hafa áhyggjur, hæstv. menntamálaráðherra, og ég vona að í síðara andsvari þínu komi þær áhyggjur fram því þær áhyggjur á hæstv. menntamálaráðherra að hafa af fjöreggi þjóðarinnar ef við erum ekki að fjárfesta í því til framtíðar.