132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:40]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er miður að heyra þann tón sem felst í málflutningi hv. þingmanns. Ég hefði haldið að hv. þingmaður ætti að gleðjast yfir að við værum að auka framlög til vaxtabóta hér á landi. Hv. þingmaður hefur talað mjög mikið um að ríkisstjórnin væri að skerða framlög til vaxtabóta. Það er rangt. Ég leiðrétti það í fyrra andsvari mínu. En hv. þingmaður kemur hér upp og tuðar yfir því að fallið skuli hafa verið frá þeim áformum að skera niður vaxtabæturnar. Það þarf sérstakt frumvarp til að skerða vaxtabæturnar og því hefur verið lýst yfir að það verði ekki flutt en hv. þingmaður kemur hér upp og tuðar eiginlega yfir því að ríkisstjórnin skuli hafa fallið frá þessum áformum sínum. Ég segi það enn og aftur að það stendur ekki til að skerða vaxtabæturnar. Ég vona að hv. þingmaður skilji orð mín þannig að þá muni framlög til vaxtabóta hækka en ekki lækka. Það stendur alveg skýrt. Það er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Framsóknarflokkurinn hefur ekki fallið frá því að styðja við bakið á húseigendum í landinu í því formi að styðja þá gagnvart afborgunum af háum lánum með háum vöxtum, sem við þurfum náttúrulega að líta til og þurfum að lækka. Við hv. þingmaður erum sammála um það. Vextir hafa verið að lækka, sem betur fer. Vegna þeirrar stefnubreytingar sem ríkisstjórnin áformaði með útgáfu íbúðabréfa lækkaði vaxtastigið um heilt prósent, úr 5,1 niður í 4,15, sem skilaði heimilunum í landinu mörgum milljörðum króna í lægri afborganir af lánum sínum. Við höfum verið að stíga jákvæð skref og það er ekki verið að skera vaxtabótakerfið niður eins og hv. þingmaður vill halda fram. En ég vona að hv. þingmaður hafi hlustað á svör mín hér og þau hafi verið nokkuð afdráttarlaus.