132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:20]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann sveigjanleika sem hér er veittur en ég hafði óskað eftir því að hæstv. menntamálaráðherra yrði hér svo við gætum rætt svolítið um stöðuna í skólamálum. Það eru helst tvö skólastig sem ég vil ræða um við hæstv. menntamálaráðherra, þ.e. framhaldsskólinn og háskólinn.

Ég kom inn á það áðan að töluverð ólga er bæði innan framhaldsskólans og háskólans vegna stöðu skólanna. Ég hef fyrir framan mig ályktun stjórnar Félags framhaldsskólakennara um fjárveitingar til framhaldsskólanna og fjárhagsstöðu þeirra. Það er býsna skýr og skorinorð ályktun þar sem stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að vanáætla gróflega, eins og þar er sagt, og árvisst fjárveitingar til framhaldsskóla hvað varðar nemendafjölda og heildarfjárþörf. Það er rakið í mjög skýru máli að framlög í fjárlögum vegna nemendafjölda í framhaldsskólunum hafi verið vanáætluð hingað til, síðan hafi verið gripið til þess ráðs í fjáraukalögunum að bæta þann skort upp en það hafi þó aldrei náðst fyllilega. Þetta er gagnrýnt harðlega í ályktuninni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa brugðist við þessari árlegu vanáætlun á nemendafjölda og heildarfjárþörf framhaldsskóla með því að sækja um viðbótarframlög í fjáraukalagafrumvörpum, sem hrökkva þó hvergi til.“

Virðulegi forseti. Hæstvirt ríkisstjórn hefur verið gagnrýnd fyrir að gera ekki raunhæfar áætlanir í fjárlögum hvað varðar kostnað við rekstur hinna ýmsu stofnana. Það er mjög slæmt ef sú staða kemur upp ár eftir ár að framhaldsskólarnir fái ekki raunhæf fjárframlög til að rekstrarins og til að mæta gríðarlegri fjölgun nemenda í framhaldsskólum á undanförnum árum.

Í áðurnefndri ályktun kemur einnig fram að skólar í heimabyggð, þ.e. skólar úti á landi, þurfi að glíma við meira brottfall og samsetning nemendahópa í þeim skólum eigi sinn þátt í að þeir komi ekki vel út úr reiknilíkönunum. Með öðrum orðum er gagnrýnt að reiknilíkanið fyrir fjárþörf framhaldsskólanna henti ekki skólum á landsbyggðinni þótt það henti fyrir meðalstóra skóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn, m.a. til hæstv. menntamálaráðherra, hvort reiknilíkanið sé til endurskoðunar og hvort gerðar verði á því breytingar til að mæta þessari gagnrýni.

Virðulegi forseti. Ég ætla að grípa aftur niður í ályktunina frá stjórn Félags framhaldsskólakennara. Í einum kaflanum er fjallað um jafnrétti til náms. Þar segir, með leyfi forseta:

„En ýmsar blikur eru á lofti í málefnum framhaldsskólans. Sífellt fleiri nemendur leita þangað, bæði nýnemar og eldri nemendur. Reiknilíkanið sem sníður skólunum allt of þröngan stakk, bæði hvað varðar nemendafjölda og fjárþarfir, gerir þeim erfitt fyrir að sinna því grundvallarhlutverki að mennta þá sem þangað vilja sækja.“

Virðulegi forseti. Þetta eru ákveðin og skýr skilaboð sem félagið sendi frá sér í gær. Örlítið aftar í þessum kafla segir síðan, með leyfi forseta:

„Það hriktir í undirstöðum margra framhaldsskóla vegna erfiðs rekstrarumhverfis sem forsendur reiknilíkansins taka ekki tillit til. Af þessum sökum hefur námsframboð margra skóla orðið einhæfara.“

Þetta er gagnrýni sem við höfum heyrt í töluverðan tíma, að skólakerfið og reiknilíkanið sem við búum við ýti skólunum út í að verða einsleitari, að námið verði einhæfara og þetta komi niður á starfs- og verknámi í skólunum. Við höfum heyrt slíka gagnrýni í nokkuð mörg ár. Þessi ályktun frá stjórn Félags framhaldsskólakennara, sýnir manni að innan framhaldsskólans telja menn að staðan hafi ekki breyst. Miðað við það hvernig ályktun félagsins er orðuð, virðulegi forseti, vil ég draga þá ályktun að framhaldsskólakennarar sjái ekki neitt í spilunum sem sýni fram á að staðan batni á næstu árum. Það hlýtur að vera áhyggjuefni.

Ég ætla að lesa lokaorð þessarar ályktunar, með leyfi forseta:

„Við Íslendingum blasa enn mörg óleyst verkefni áður en menntunarstig þjóðarinnar stenst samjöfnuð við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Þar er tekið á móti hverjum nemanda sem æskir skólagöngu, sú er ekki raunin hérlendis.“

Virðulegi forseti. Mér þætti vænt um að hæstv. menntamálaráðherra brygðist við því sem ég hef nefnt úr þessari ályktun. Hún bendir til að framhaldsskólakennarar séu ekki bjartsýnir á að hagur framhaldsskólanna muni vænkast á næstunni. Við vitum að þeim hefur verið sniðinn þröngur stakkur undanfarin ár. Ég vildi gjarnan heyra viðbrögð hæstv. menntamálaráðherra við þessu.

Annað sem ég vil koma inn á varðar háskólastigið. Á undanförnum mánuðum hafa komið fram tvær skýrslur um stöðu Háskóla Íslands. Önnur þeirra er stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu Háskóla Íslands. Hin er úttekt sem gerð var á vegum European University Association. Þessar skýrslur hljóta að vekja töluverðan ugg í hjörtum okkar vegna þess að þær gefa báðar skýrt til kynna að þessi stóra stofnun, rannsóknaháskólinn sem við höfum byggt upp í hátt í 100 ár, búi við verulegan fjárskort. Báðar þessar skýrslur draga fram að Háskóli Íslands er vel rekin stofnun en sé að komast í þrot með þau úrræði sem þar eru til innan húss til að draga saman seglin og næsta verkefni sé að auka fjárframlög til skólans.

Hæstv. menntamálaráðherra ræddi það hér í andsvörum við hv. þingmann Helga Hjörvar fyrr í dag að framlög til háskólanna hefðu aukist verulega. Það er rétt en nemendum hefur líka fjölgað verulega. Þess vegna kemur hækkunin til. Mér þætti vænt um að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hve mikið framlögin hafi hækkað í rauninni. Hver er hækkunin, umfram þá hækkun sem til kemur vegna reiknilíkansins sem gengur út frá fjölgun nemenda? Hver er sú hækkun, svo það komi fram í dagsljósið í eitt skipti fyrir öll? Í svari ráðherra þyrfti líka að koma fram hversu hátt hlutfall af hækkuninni er vegna hækkunar launa starfsmanna vegna þess að það er alls ekki sama til hvers féð er veitt. Það sem þessar skýrslur gagnrýna báðar og draga fram er að hækka verði fjármagn á hvern nemanda. En hækkunin undanfarin ár er fyrir hvern nemanda, umfram það sem ætlað var. Þetta verður að koma fram.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er gerður samanburður á Háskóla Íslands og tíu öðrum háskólum. Þar kemur Háskóli Íslands verulega illa út eins og komið hefur fram í umræðunni í dag og við erum með langlægstu framlög á hvern nemanda á undan háskólanum í Rijeka í Króatíu. Hæstv. menntamálaráðherra sagði í andsvari við hv. þingmann Helga Hjörvar að staðreyndirnar töluðu sínu máli. Þessi staðreynd talar sínu máli.

Háskóli Íslands stenst ekki samanburð við þá háskóla sem Ríkisendurskoðun kýs að bera saman við hvað varðar fjárframlög á hvern nemanda. Og hann kemst ekki í hálfkvisti við marga þá skóla sem eru samanburðarhæfir við Háskóla Íslands að flestu leyti til. Þetta er, virðulegi forseti, staðreynd sem talar sínu máli.

Önnur staðreynd sem talar sínu máli og kemur fram í sömu stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er hvar við stöndum í samanburði við hin OECD-ríkin hvað varðar framlag til háskólanna. Þar erum við rétt undir meðaltalinu hjá OECD-ríkjunum og erum töluvert á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum. Þetta stendur hér skýrum stöfum og það verður ekkert hlaupið frá því. Ég hefði viljað sjá einhverja áætlun um hvernig við ætlum á næstu árum að ná nágrönnum okkar og þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við því að við eigum ekki að vera í meðaltalinu að mínu mati. Þarna eigum við að fara langt upp úr meðaltalinu og við eigum að tróna á toppnum vegna þess að lítil þjóð eins og okkar á að geta rekið öflugt menntakerfi og það er undirstaða velferðar til framtíðar. Það erum við hins vegar ekki að gera, við vitum það, það stendur skýrum stöfum í þeim skýrslum sem hafa verið gerðar. Það hefur líka komið í ljós í PISA-rannsóknum. Við eigum því að horfast í augu við þetta og fara að gera eitthvað í málinu en ekki berja okkur á brjóst fyrir einhverja mynd sem er ekki rétt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá, með leyfi forseta, að koma aðeins inn í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar hvað varðar Háskóla Íslands og vitna í ákveðinn kafla í skýrslunni sem heitir Umræða og niðurstöður.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá sýnist hann koma ágætlega út úr samanburði á hagkvæmni og skilvirkni sem gerður var við nokkra erlenda háskóla. Fjárhagsvandi háskólans er því ekki fólginn í stöðugum hallarekstri og skuldasöfnun heldur liggur fremur í að skólinn á óhægt um vik að mæta auknum kostnaði vegna fleiri nemenda, nýrra námsbrauta og dýrari starfsmanna án þess að það komi niður á gæðum kennslu og rannsókna. Einnig er hætt við að fjárhagsstaða skólans komi í veg fyrir að hann geti þróast sem öflugur rannsóknaháskóli með framhaldsnámi og rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð.“

Virðulegi forseti. Seinna í sama kafla segir, með leyfi forseta:

„Til að halda aftur af aukningu útgjalda hefur skólinn gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða, svo sem að stækka nemendahópa og fjölga stundakennurum í stað þess að fastráða kennara. Hætt er við að þessar aðgerðir komi að öðru óbreyttu niður á gæðum kennslunnar. Fjárframlög til rannsókna hafa staðið í stað að raungildi. Þessari þróun hefur að nokkru verið mætt með aukinni skilvirkni og má sjá þess merki í afköstum eins og þau mælast í vinnumatskerfi skólans.“

Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram að Háskóli Íslands hefur gert það sem í hans valdi stendur til að hagræða innan stofnunarinnar til að halda sig innan þess ramma sem honum er ætlaður. Þetta eru skýr skilaboð um að ef ekkert verður gert í málunum, ef framlag verður ekki aukið á hvern nemanda, ekki með hverjum nemanda heldur á hvern nemanda, muni það hamla framþróun skólans. Þetta þykja mér alvarleg tíðindi og þetta er staðfest í skýrslunni sem gerð er af European University Association.

Virðulegi forseti. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar kemur einnig fram að samanburður Háskóla Íslands og erlendra háskóla sé athyglisverður vegna þess að tekjur háskólans séu lægri en samanburðarskólar með svipaðan nemendafjölda fá.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Sams konar munur sést þegar útgjöld ríkja til háskóla eru skoðuð en þar eru Íslendingar fremur neðarlega á blaði. Hvað segir þetta um starfsemi háskólans? Tvær meginskýringar koma til greina: Annars vegar sú að skilvirkni skólans sé mjög mikil í samanburði við hina skólana, þ.e. að hann skili svipuðum árangri og þeir með mun minni tilkostnaði. Að einhverju leyti virðist þetta vera raunin, t.d. menntar skólinn tiltölulega marga nemendur í grunnnámi. Hins vegar virðast minni fjármunir og mannafli leiða til minni starfsemi og árangurs. Þetta er einnig raunin, sérstaklega þegar kemur að framhaldsnámi. Telja verður að fjárhagslegt svigrúm Háskóla Íslands takmarki möguleika skólans til að byggja upp öflugt framhaldsnám og rannsóknir í samræmi við þá stefnu hans að vera rannsóknaháskóli og hluti af hinu alþjóðlega vísindasamfélagi.“

Virðulegi forseti. Í skýrslu European University Association er einnig komið inn á að skýrari stefnumótun vanti af hálfu stjórnvalda hvað varðar fjármögnun opinberu háskólanna og Háskóla Íslands. Því vil ég, virðulegi forseti, kalla eftir því hjá hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún ætli að bregðast við því sem kemur fram í báðum þessum skýrslum, vegna þess að í þeim kemur fram þungur dómur. Þær sýna okkur að Háskóli Íslands er vel rekin stofnun, hún er skilvirk, en hún er stopp, hún getur ekki þróast, hún getur ekki stækkað með þessu áframhaldi. Því vil ég, virðulegi forseti, spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún vilji bregðast við þessu vegna þess að hættan er auðvitað sú að við munum sjá í auknum mæli að námsframboð muni minnka á háskólastigi. Næsta skref fyrir Háskóla Íslands er að grípa til sömu aðgerða og gert var í Háskólanum á Akureyri þar sem verið er að leggja niður deildir, minnka námsframboðið. Ég trúi ekki, virðulegi forseti, að það sé sú leið sem við ætlum okkur að fara vegna þess að það mun ekkert stoppa það. Ég er hérna með tvær skýrslur um Háskóla Íslands, en ég get líka talað í jafnlöngu máli um Háskólann á Akureyri og eftir að skýrsla um stöðu Háskólans á Akureyri kom út sjáum við að hann er jafnvel enn verr staddur. Þetta er því verkefni sem við verðum að ræða. Við ætlum ekki að horfa upp á það í nánustu framtíð að námsframboð verði minnkað, að hér verði sett ströng inntökuskilyrði, því að þessir skólar verða að stækka og þróast áfram til að geta verið samkeppnishæfir við erlenda háskóla.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvað eigi að gera varðandi Háskólann á Akureyri. Mér finnst ofsalega sorglegt að við séum með þetta flaggskip menntunar á landsbyggðinni, Háskólann á Akureyri, sem er notaður í ræðu og riti sem rósin í byggðastefnu hæstv. ríkisstjórnar, að hann sé í þeirri stöðu sem hann er í núna að fá allt of lág framlög og að skera þurfi niður deildir. Þetta er skert þjónusta við landsbyggðina af því að við vitum og tölur hafa sýnt að þeir sem sækja nám við Háskólann á Akureyri skila sér í atvinnulífið úti á landi. Þetta er því afar slæm staða. Þess vegna þætti mér vænt um að fá einhverja skýringu á því eða frásögn hvað þarna eigi að gera vegna þess að ég trúi ekki öðru en að hæstv. menntamálaráðherra ætli að gera eitthvað. Ekki viljum við minnka þjónustustigið úti á landi hvað menntunina varðar og þar með draga út þjónustu við landsbyggðina og skilja Háskólann á Akureyri eftir sem fölnað blóm í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en spurt um annað atriði þessu tengt. Þegar við höfum fyrrgreindar tvær skýrslur sem benda á að aukið fjármagn verði að koma inn í háskólana, bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og við getum án efa nefnt fleiri, þá þykir mér það verulegt umhugsunarefni og vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra aðeins út í skólagjöld, vegna þess að á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins er síðasta setningin í ályktun um skóla- og fræðslumál á þá leið að landsfundur leggi til að nemendur við opinbera háskóla taki í auknum mæli þátt í kostnaði við nám sitt. Erum við að horfa upp á að nemendur fari að greiða með sér inn í háskólana? Erum við að horfa á upphafið að því? Mér finnst í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er og ekki er lengra liðið frá því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem hæstv. menntamálaráðherra tilheyrir, kemur með slíka setningu í ályktun, þá hlýtur maður auðvitað að spyrja hvort þetta sé næsta skref.

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að fara að stytta mál mitt. Það er tvennt í viðbót sem mig langar að ræða við hæstv. menntamálaráðherra. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hana út í Kennaraháskólann og kennaramenntun, hvort það sé til skoðunar að gefa bæði Háskólanum á Akureyri, sem býður upp á kennaramenntun, og Kennaraháskóla Íslands svigrúm til þess að taka inn fleiri nemendur á næstu árum. Í því samhengi vil ég ekki síst nefna leikskólakennaradeildirnar og leikskólakennaradeildina í Kennaraháskólanum. Við búum við þá stöðu núna að mjög vantar faglært fólk inn í leikskólana. Vandi leikskólanna sem hefur birst okkur á undanförnum mánuðum, mönnunarvandi leikskólanna felst í því að gríðarleg starfsmannavelta er í leikskólunum.

Á vef Hagstofunnar er hægt að sjá að starfsmannaveltan í hópi ófaglærðra starfsmanna er um tæplega 30% á meðan hún er um 7% hjá faglærðum. Það hlýtur því að vera metnaður okkar til framtíðar og hlýtur að vera næsta stóra verkefnið hvað leikskólana varðar að fjölga í þeim hópi sem vill gera starf á leikskóla að ævistarfi til þess að minnka starfsmannaveltu og koma á meiri stöðugleika í leikskólum landsins, sem er jú fyrsta skólastigið og gefin er út námskrá fyrir af hálfu menntamálaráðuneytisins. Ég vildi því spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í hver hennar framtíðarsýn er í þessum efnum varðandi leikskólakennaramenntun.

Síðan að lokum, virðulegi forseti, vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra örlítið út í Listdansskóla Íslands og niðurlagningu hans. Við höfum beðið eftir því í allt haust að fá einhver svör við því hvert hinir tæplega 200 nemendur, sem þar stunda nám frá níu ára aldri og upp í framhaldsskóla, ættu að sækja dansmenntun sína þegar skólinn verður lagður niður í vor. Við höfum ekki fengið nein svör við því. Skólinn var bara lagður niður í einu vetfangi sumar og engin svör fengust. Síðan kom það upp á dögunum að gerður var samningur við fyrirtæki sem mig minnir að heiti Dansmennt ehf. sem á að sjá um danskennslu. Fyrsta verkefni þeirra var að semja við Menntaskólann við Hamrahlíð um framhaldsskólanema.

Virðulegi forseti. Þessi svör eru ekki nægjanleg. Framtíðarsýnin um hvert þessir nemendur eigi að fara hefur ekki verið nógu skýr. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir að halda áfram starfsemi Listdansskólans fyrir nemendur í grunnnámi og framhaldsnáminu að einhverju leyti.

Niðurlagning skólans kemur einungis fram á fjárlögum, þetta bar að einungis í gegnum fjárlögin að klippt var á framlög til Listdansskólans. Ég vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra, í fyrsta lagi: Er hagræði í því að gera þetta á þann hátt eins og ætlunin er, að þetta verði einkavætt? Í öðru lagi: Hvaða tryggingu hafa nemendur fyrir því að fá það sérhæfða nám sem Listdansskólinn hefur boðið upp á fyrir börn frá níu ára aldri? Við erum ekki að tala einungis um framhaldsskólanemendur. Hvaða tryggingu hafa nemendur fyrir því að þetta nám verði rekið áfram þannig að þeir eigi eðlilegt framhald og eðlilegt áframgengi í framhaldsnám á erlendri grundu sem Listdansskólinn hefur veitt hingað til?

Ég vil ítreka að þetta liggur ekki nógu ljóst fyrir og ég vil spyrja hvort hæstv. menntamálaráðherra geti ekki í eitt skipti fyrir öll sagt okkur hvert og hvernig þessu námi verði fyrir komið þegar skólanum hefur verið lokað í þeirri mynd sem hann er í dag. Vegna þess að þetta er alls ekki nógu skýrt og það er gagnrýni vert hvernig þessi ákvörðun var tekin, ekki í neinu samráði við fagaðila og ekki í neinu samráði við þá sem innan skólans störfuðu, ekki við foreldrana og ekki við nemendur. Þeir eru búnir að vera í óvissu í fleiri mánuði og ég vonast til að hæstv. menntamálaráðherra eyði henni í eitt skipti fyrir öll, þannig að þeir viti t.d. hversu hátt gjald þeir muni þurfa að greiða fyrir námið á næstu önn ef þeir ætla að halda áfram í sínu námi.

Ég hef lokið máli mínu og vonast til að hæstv. menntamálaráðherra geti svarað spurningum mínum.