132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:27]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Þetta fer nú kannski að vera hættulegt, þ.e. að taka undir með henni. Ég ítreka enn og aftur að Háskóli Íslands er flaggskip háskólaumhverfisins og við leggjum ákveðnar skyldur þeim góða skóla á herðar. Hins vegar er ljóst að til að framfylgja stefnu Vísinda- og tækniráðs sem ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér — við erum að koma á auknu samkeppnisumhverfi í rannsóknum — en þá um leið hefur Vísinda- og tækniráð sagt líka að auka þurfi grunnframlög til háskólanna varðandi rannsóknir til að þeir geti keppt á sæmilegum jafnréttisgrundvelli inn í sjóðina sem við erum að efla og höfum eflt svo um munar. Framlög til rannsókna hafa aukist það mikið að við höfum náð því takmarki, eins og ég kom inn á áðan, sem Evrópusambandsríkin hafa sett sér fyrir árið 2010. Við erum að auka samkeppnina um rannsóknarframlagið. Við erum að auka framlögin inn í rannsóknarsjóðina. En við þurfum líka að auka (Forseti hringir.) grunnframlögin til rannsókna til háskólanna.