132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Það er langt liðið á 3. umr. og rétt að tæpa hér á nokkrum atriðum sem fram hafa komið í umræðunni. Eitt sem hefur komið upp er að mönnum finnst óeðlilegt að fjárlaganefnd hafi svo gott sem lokið umfjöllun sinni um fjárlagafrumvarpið að lokinni 2 umr. og að meiri hlutinn skuli ekki flytja nema eina breytingu sem kalla mætti tæknilega. Hún er reyndar flutt af hálfu formanns og varaformanns fyrir hönd meiri hlutans ef ég man þetta rétt. Ég held samt að þetta sé hið eðlilegasta mál, sérstaklega í ljósi þess að sú breyting hefur orðið á að tekjuáætlun er nú kynnt fyrir 2. umr. en ekki við 3. umr. eins og áður var. Meginlínurnar liggja þá betur fyrir vegna þess að tekjurnar liggja fyrir og auðvitað sú viðmiðun sem útgjöldin verða að hafa að einhverju leyti útgangspunkt í þótt það sé auðvitað ekki algilt og 100% viðmið sem þar er. Ég held að það sé eðlilegt að langsamlega mest af vinnunni og afgreiðsla nefndarinnar fari fram við 2. umr. og þá fær raunverulega fjárlagafrumvarpið líkari meðferð og önnur frumvörp. Síðan geta hlutir gerst eins og við afgreiðslu fjáraukalaga fyrr á þessu þingi þegar upp komu atvik eftir að 2. umr. lauk sem leiddu til þess að leggja þurfti til breytingar við 3. umr. Þá auðvitað gegnir 3. umr. fullkomlega hlutverki sínu en það er ekki endilega þannig að jafnvel þótt menn eigi eina umræðu eftir þurfi að auka í útgjöldin, eins og manni fannst aðeins liggja að í umræðunni að gera ætti.

Það er þó líka þannig jafnvel að lokinni 3. umr. og þá standa eftir álitaefni sem menn hafa ekki komist að endanlegri niðurstöðu um. Það er fullkomlega eðlilegt líka að það þarf einfaldlega að klára fjárlög á tilteknum tíma og það liggja ekkert endilega niðurstöður fyrir í öllum málum. Það má segja að fyrst og fremst hafi borið á tveimur málum í umræðunni hvað þetta varðar, t.d. stöðu hjúkrunarheimilanna. Framkvæmdarvaldið er meðvitað um þá umræðu og þá vinnu sem þar hefur farið fram, enda hefur það staðið fyrir þeirri vinnu að hluta til sjálft. Niðurstaðan liggur ekki endanlega fyrir. Það sem liggur fyrir hefur ekki verið greint en það verður auðvitað gert síðar og menn geta þá tekið afstöðu til þess hvernig mönnum sýnist staðan vera.

Eins eru það málefni rannsóknarhúss Háskólans á Akureyri. Þar eru að mínu mati ekki öll kurl komin til grafar og það mál snýr að fleiri aðilum en háskólanum sjálfum og þá að þeim stofnunum sem nýta sér húsnæði rannsóknarhússins. Ég held að við þurfum að skoða þetta betur og sjá hvernig staðan er og hvernig rétt er að bregðast við henni, þá með tilliti til þess að fleiri aðilar en bara háskólinn nýta húsnæðið.

Síðan hafa orðið umræður um vaxtabætur. Kannski er rótin þar að einhverju leyti misskilningur og hv. þingmenn hafa ekki alveg áttað sig á stöðunni og að einhverju leyti er kannski mér um að kenna líka. Ég ætla ekkert að útiloka það. Staðan er sú að fallið hefur verið frá þeim fyrirætlunum sem kynntar voru í frumvarpinu um að gera lagabreytingar í framhaldi af þeim breytingum sem gerðar voru í fyrra og giltu einungis í eitt ár. Eins og hv. þingmenn hafa væntanlega tekið eftir hefur ekki verið lagt fram frumvarp á þinginu í vetur um þær breytingar og það verður ekki gert. Þar af leiðandi verður ekki um að ræða þær skerðingar og aðrar breytingar sem kynntar eru í þeim kafla fjárlagafrumvarpsins. Það eru þær breytingar sem geta virkað í báðar áttir og niðurstaðan er sú að það að falla frá þessum fyrirhuguðu breytingum mun ekki hafa þau áhrif á stöðu þessara mála að nauðsynlegt sé að leggja fram breytingartillögur hvað varðar upphæðirnar. Því stendur það eftir að um 200 millj. kr. aukningu verður að ræða á framlögum samkvæmt frumvarpinu til vaxtabóta.

Eitt mál hefur komið nokkuð upp í dag líka, umræða um skýrslu Stefáns Ólafssonar um öryrkja og velferð. Ég verð að segja að þessi skýrsla kom mér nokkuð á óvart og olli mér reyndar nokkrum vonbrigðum líka, a.m.k. við fyrstu sýn. Ég tel þó ekki skynsamlegt að fara út í mikla efnislega umræðu um skýrsluna fyrr en búið verður að fara nákvæmar ofan í þær upplýsingar sem þar er að finna og þær forsendur sem þær upplýsingar eru byggðar á. Vonandi verður hægt að kynna niðurstöður þeirra athugana sem fyrst en ég endurtek að skýrslan kom mér á óvart og við fyrstu sýn valda niðurstöðurnar mér vonbrigðum en leiða þó til þess að þær þarf að skoða betur.

Jafnframt hefur orðið nokkur umræða í dag um nýjustu skýrslu Seðlabankans í Peningamálum og í tengslum við ákvarðanir um hækkun á stýrivöxtum bankans um 25 punkta fyrir helgina. Þetta er áhugaverð skýrsla og sérstaklega auðvitað umfjöllunin um ríkisfjármálin og þær athuganir sem Seðlabankinn hefur gert í þeim efnum. Ánægjulegt er líka að Seðlabankinn tekur jákvætt í þau markmið sem sett eru í fjárlagafrumvarpinu og hafa síðan komið fram í því hvernig þróun mála hefur verið hvað fjárlagafrumvarpið varðar í meðförum þingsins á haustdögum.

Í heildina litið er Seðlabankinn jákvæðari hvað varðar þróun í efnahagsmálum og verðbólguhorfur hafa batnað. Jafnframt því hefur Seðlabankinn kynnt til sögunnar svokölluð fráviksferli hvað varðar verðbólguna og sýnir þar hvernig hann metur það hvað markaðsaðilar sjái fyrir sér, hver þróunin geti verið bæði hvað varðar breytt gengi og breytta vexti. Eins og hv. þingmenn vita spáir Seðlabankinn hvorki fyrir um sínar eigin vaxtabreytingar né um það hvert gengi krónunnar verður. Hann verður því að notast við þessar greiningar á spám markaðarins. En það er greinilegt að Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að gengið muni lækka á næstu mánuðum og að hann muni með vaxtaákvörðunum reyna að hafa áhrif á það hvernig þróun gengisins verður til að stýra þá verðbólguferlinu að markmiði Seðlabankans á næstu missirum. Ég held að það sé nokkuð skynsamleg hugsun sem fram kemur hjá Seðlabankanum og ég held að atvinnulífið eigi að geta fagnað þeirri hugsun sem þar kemur fram og sjá þá fram á að þeim erfiðleikum sem hátt gengi krónunnar hefur valdið því muni linna með tíð og tíma þó að auðvitað sé ekki beinlínis lagt fram tímaplan af hálfu Seðlabankans í þessum efnum.

Eitt af því sem hefur komið fram hjá Seðlabankanum líka er það að hann — það er kannski helsta frávikið sem núna er í spá Seðlabankans og í spá fjármálaráðuneytisins í þjóðhagsáætluninni, þ.e. spáin um hagvöxtinn — gerir ráð fyrir meiri hagvexti og þá væntanlega í samhengi við að hann reiknar með meiri tekjum og meiri afgangi á ríkissjóði. Út af fyrir sig á það ekki að breyta mjög miklu í þeirri afgreiðslu sem við sjáum fram á á þinginu að tekjurnar hafi ekki á þennan hátt áhrif á útgjaldaáformin. Auknar tekjur ættu einungis að verða til þess, miðað við þær ákvarðanir sem varða afgang á ríkissjóði, að aðhaldið eykst. Þannig séð er þetta jákvætt hvað ríkisfjármálin varðar og ekki ástæða til að láta það raska þeim áætlunum sem hér er verið að vinna með.

Ég held, herra forseti, að ég láti þetta nægja í bili. Hér í dag hafa verið ágætar umræður og málefnalegar eins og umræðurnar hafa verið um fjárlagafrumvarpið í vetur, a.m.k. að mestu leyti. Það er ánægjulegt að svo skuli geta verið því að eins og kom fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur lifum við í góðæri en þó að gott sé í ári hjá ríkissjóði þýðir það ekki endilega að það sé eitthvað auðveldara fyrir okkur á hv. Alþingi að taka ákvarðanir. Það getur líka verið erfitt fyrir okkur að marka rétta kúrsinn þegar vel gengur því að við viljum auðvitað láta þann tíma sem velgengni fylgir endast sem lengst og nýtast okkur sem best.