132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er með hreinum ólíkindum að meiri hlutinn skuli ætla að ljúka svo fjárlagaafgreiðslunni og vinnu fyrir jólin að ekki verði tekið á vanda Byggðastofnunar og byggðamálunum almennt. Eins og kunnugt er er eigið fé Byggðastofnunar komið niður fyrir viðmiðunarmörk, Fjármálaeftirlitið hefur stofnunina í sérstakri gjörgæslu og krefur hana svara um það hvernig hún ætli að kippa sínum málum í lag.

Stjórn stofnunarinnar greip til þess ráðs að loka fyrir lánveitingar sem eðlilegt er og telur stofnunina ekki vera í færum um að veita frekari lán fyrr en ráðin hefur verið bót á eiginfjárvanda hennar. Í stað þess að leggja henni til meira fé eða koma með einhverjar aðrar tillögur til úrbóta skipar hæstv. ráðherra sem jafnframt er yfirmaður Fjármálaeftirlitsins Byggðastofnun að hefja lánveitingar á nýjan leik þó að hún sé í raun og veru með því að brjóta lög og reglur.

Þetta er með miklum endemum, frú forseti. Við leggjum til að úr þessu verði bætt, annars vegar með því að eigið fé Byggðastofnunar verði styrkt um hálfan milljarð og sömuleiðis leggjum við til fjárveitingu til að efla atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni.